Skátarnir: Mikilvægt að félagasamtök vinni saman að heimsmarkmiðunum

Bandalag íslenskra skáta hefur þegar hafist handa við að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem nýja táknræna umgjörð allrar starfsemi samtakanna. Í upphafi þróunarvinnunnar horfði starfsfólk út fyrir landsteina og kynnti sér nálgun annarra landssamtaka skáta á heimsmarkmiðunum. Í framhaldi af því var farið í samstarf við dönsku skátana um innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi og voru skátarnir með því samkvæm markmiði 17 um samvinnu um heimsmarkmiðin.

 

Gefið hefur verið út dagskrárefni um heimsmarkmiðin sem ungu skátarnir hafa þegar byrjað að nota. Dagskrárefnið byggir á skátaðferðinni og athafnanámi sem eflir unga skáta að tileinka sér heimsmarkmiðin jafnt innan sem utan skátastarfs í þeim tilgangi að byggja betri heim.

Bættu við heimsmarkmiði 18

Íslenska skátahreyfingin hefur alltaf haft það að markmiði að þróa ábyrgðarkennd ungra skáta gagnvart velferð hvers annars, samfélags og náttúru. „Í ferðum okkar og dagskrá vinnum við að þessum markmiðum og gerum skátunum kleift að huga betur að veröldinni sem umlykur okkur,“ segir starfsfólk skátamiðstöðvarinnar. „Skátahreyfingin leitar leiða til að opna augu ungmenna fyrir því að innra með þeim er fólginn sá kraftur sem þarf til að efla sjálf sig og byggja betri heim. Heimsmarkmiðin falla vel að þessum markmiðum skátahreyfingarinnar þar sem þau snerta á hvernig við sem borgarar getum lagt okkar á vogarskálarnar til tryggja betra líf á jörðu. Þannig virka heimsmarkmiðin sem góður leiðarvísir að því hvernig við sem skátar lofum að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að hjálpa öðrum og vernda náttúruna sem við njótum í leik og starfi.“

Á þessari stundu eru skátarnir með tvö heimsmarkmið í brennidepli; markmið fjögur um menntun fyrir alla og heimsmarkmið 18 um styrkja og virkja ungt fólk. Átjánda heimsmarkmiðið er að vísu ekki eitt af markmiðum Sameinuðu þjóðanna en DUF (Dansk Ungdoms Fællesråd) bætti því við til gamans í því skyni að draga athygli að hlutverki ungs fólks við innleiðingu markmiðanna. „Þó þetta sé gert til gamans leikur enginn vafi á að það er unga fólkið sem þarf að draga vagninn inn í sjálfbæra framtíð. Með því að styrkja og virkja ungt fólk til þátttöku tryggjum við að heimsmarkmiðin verði ekki eitthvað sem við bara tölum um heldur eitthvað sem við getum brugðist við með beinum hætti ekki bara núna heldur líka í framtíðinni,“ segja fulltrúar Bandalags íslenskra skáta.

Þátttaka félagasamtaka styrkir innleiðinguna

Mat Bandalags íslenskra skáta er að með því að virkja félagasamtök í innleiðingu á heimsmarkmiðunum fæst meiri breidd í nálgun markmiðanna og meiri líkur á að innleiðingin skili tilætluðum árangri. Það efli vitundina um að heimsmarkmiðin séu ekki einungis markmið frá stjórnvöldum heldur séu þetta markmið sem allir geti sameinast um og ættu að tileinka sér.

„Félagasamtök eru mjög mismunandi og höfða til mismunandi þjóðfélagshópa sem geta verið á öllum aldri og á öllum þjóðfélagsstigum. Með því að virkja þau á sínum forsendum og með sínum félögum fæst sú breidd og nálgun sem styrkir innleiðinguna,“ segja fulltrúar Bandalags íslenskra skáta.

Þá sé mikilvægt að félagasamtök vinni saman að markmiðunum og deili sinni vinnu og nálgun á heimsmarkmiðin. Það sé í samræmi við heimsmarkmið 17 sem leggur áherslu á samvinnu þvert á félagasamtök og stofnanir.
„Með því nýtast áherslur og aðferðir sem best. Skátarnir eru reiðubúnir að deila sínu efni með áhugasömum, hvort heldur er með skólakerfinu eða öðrum félagasamtökum. Með þessu náum við bestum árangri í að styrkja og virkja sem flest ungt fólk á Íslandi til að lifa sjálfbæru lífi.“