Lög samtakanna

Lög Almannaheilla, samtaka þriðja geirans 

Heiti og heimili

1. gr.
Almannaheill, samtök þriðja geirans, eru samstarfsvettvangur félaga og sjálfseignarstofnana á Íslandi sem vinna að almannaheill án hagnaðarsjónarmiða. Heimili þeirra og varnarþing eru í Reykjavík.

 

Markmið

2. gr.
Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, er ætlað að:

1. Vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa í almannaþágu, vinna að sem hagfelldustu starfsumhverfi fyrir þessa aðila, styrkja ímynd og efla stöðu þeirra í samfélaginu.

2. Koma fram fyrir hönd þriðja geirans gagnvart opinberum aðilum og samfélaginu, stuðla að umræðu um hagsmuna- og fræðslumál á meðal almannaheillasamtaka og á opinberum vettvangi, og þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir í þágu þriðja geirans.

Samtökin leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi:

Rekstrarumhverfi: Vinna að bættu skatta- og rekstrarumhverfi íslenskra almannaheillasamtaka, til samræmis við það sem best þekkist.

Lagaumhverfi: Stuðla að því að heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana á hverjum tíma, tryggi sem best réttindi þeirra, skyldur og traust rekstrarumhverfi þeirra, almenningi til heilla.

Fagmennska og fræðsla: Standa fyrir opinni umræðu og fræðslu til að stuðla að faglegum og ábyrgum vinnubrögðum frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.

Ímynd: Skýra hlutverk almannaheillasamtaka og sjálfseignarstofnana fyrir almenningi og opinberum aðilum og undirstrika gagnsemi þeirra fyrir íslenskt samfélag.

 

Félagsaðild

3. gr.
Aðilar að samtökunum geta orðið frjáls félagasamtök með almennan aðgang og lýðræðislega stjórnarhætti, sem skráð eru hjá hinu opinbera og er ætlað að vinna að heill ótiltekins fjölda manna án hagnaðarsjónarmiða þeirra sem reka og stýra félaginu, einnig sjálfseignarstofnanir, sem hafa samskonar markmið. Leggja verður aðildarumsókn, ásamt samþykktum umsækjanda og skýrslu um starfsemi hans, fyrir stjórn Almannaheilla. Stjórnin afgreiðir umsóknir samkvæmt samþykktum starfsreglum. Sama gildir um tillögur um brottreksturaðildarfélags. Brottrekstur þarf samþykki 2/3 fulltrúa á aðalfundi.

 

Aðalfundur

4. gr
Aðalfundur Almannaheilla fer með æðsta vald og ákvörðunarrétt í málefnum samtakanna. Skal hann að jafnaði haldinn fyrir 15. júní ár hvert. Senda skal út fundarboð til aðildarfélaga með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Í aðalfundarboði skal kynna dagskrá, fundartíma og fundarstað. Aðalfundurinn telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.

5. gr.
Aðildarsamtökin eiga rétt á einum fulltrúa á aðalfundinn hvert. Aðildarsamtök sem greiða félagsgjöld samkvæmt efri þrepum í félagsgjaldaskrá Almannaheilla skulu eiga rétt á viðbótarfulltrúum, einum fyrir hvert þrep.

6. gr.
Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi atriði:
– Kosning fundarstjóra og fundarritara.
– Ávörp gesta.
– Skýrsla stjórnar um nýliðið starfsár og starfið framundan.
– Skýrsla um fjárhag samtakanna.
– Umræður um skýrslur og afgreiðsla ársreiknings.
– Kosning stjórnar og skoðunarmanna .
– Ákvörðun um gjaldskyldu aðildarfélaga.
– Lagabreytingar.
– Önnur mál.

7. gr.
Stjórnin skal kalla til auka aðalfundar, annað hvort að eigin frumkvæði eða sé þess óskað af minnst ¼ stofnana og félaga að samtökunum. Boðað skal skriflega til fundarins með minnst fjögurra vikna fyrirvara og halda hann svo fljótt sem auðið er. Í fundarboði skal getið hvert sé tilefni fundarins. Auka aðalfundur skal hafa sama vald og venjulegur aðalfundur.

Kjörgengi og kosningar

8. gr.
Stjórn samtakanna skipa sjö einstaklingar. Formaður skal kosinn sérstaklega og til eins árs í senn. Einnig skal kjósa þrjá stjórnarmenn til tveggja ára setu og allt að þrjá til eins árs, ef þörf krefur. Kjósa skal sjö einstaklinga í varastjórn til eins árs í senn. Ennfremur skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara til eins árs. Kosningar fara fram á aðalfundi.

9. gr.
Stjórn samtakanna skal fyrir aðalfund tilnefna þriggja manna uppstillingarnefnd. Hlutverk hennar er að tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi. Skal nefndin í störfum sínum leitast við að tryggja að jafnræði ríki milli aðildarsamtakanna um setu í stjórn, að jafnrétti ríki milli kynja um stjórnarþátttöku, svo og að eðlileg endurnýjun stjórnarmanna eigi sér stað.

10. gr.
Formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Hana skipa varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnendur. Stjórnin ber ábyrgð á störfum samtakanna. Hún getur skipað sérstakar nefndir til að sinna tilteknum málefnum og getur ráðið starfsfólk eftir því sem fjárhagur leyfir. Stjórnarfundir skulu færðir til bókar og skal bókunin vera aðgengileg aðilum að samtökunum.

 

Fjárhagsmál

11. gr.
Heimilt er að ákveða sérstakt árgjald aðildarfélaga að Almannaheillum og skal það ákveðið á aðalfundi. Þá er samtökunum heimilt að afla styrktaraðila og jafnframt að taka við framlögum frá ríki og sveitarfélögum.

12. gr.
Reikningsárið skal vera almanaksárið. Minnst tveimur vikum fyrir aðalfund skal senda aðilum að samtökunum ársreikning yfirfarinn af tveimur skoðunarmönnum.

13. gr.
Formaður og gjaldkeri skuldbinda samtökin í sameiningu, í umboði stjórnar, en í fjarveru annars þeirra kemur einhver stjórnarmanna í stað þess sem er fjarverandi.
Lagabreytingar

14. gr.
Tillögur um breytingar á lögum samtakanna skal senda stjórn eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Tillögur til breytingar á lögum skal senda aðildarsamtökum a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.

15. gr.
Til að breyta lögum þessum þarf 2/3 fulltrúa á aðalfundi. Til þess að leggja samtökin niður þarf sama hlutfall atkvæða. Séu samtökin lögð niður falla eignir þeirra til góðgerðarmála að ákvörðun aðalfundar.

________________________________________
Afgreitt á aðalfundi Almannaheilla 30. maí 2011
Breyting var gerð á 1.grein á aðalfundi 12. júní 2014
Ákvæði til bráðabirgða var fellt út á aðalfundi 26. maí 2016
Breyting var gerð á 1., 2., 3., 4., 6., 7., 8., 10., 12., og 15. greinum á aðalfundi 26. maí 2016