Siðareglur

Siðareglur Almannaheilla gilda fyrir starfsemi félagsins en eru einnig hugsaðar sem fyrirmynd fyrir starfsemi almannaheillasamtaka.

TILGANGUR SIÐAREGLNA ER AÐ

 • veita almannaheillafélögum stuðning í veigamiklu hlutverki þeirra við að stuðla að almannaheill í samfélaginu.
 • upplýsa almenning um þau gildi sem móta starf Almannaheilla og aðildarfélaga og auka traust á starfi þeirra.
 • hvetja til gagnrýnnar og uppbyggjandi umræðu um starfsemi almannaheillasamtaka.
 • auka gagnsæi, efla góða stjórnarhætti og faglegt starf í þágu almennings.
 • setja viðmið um breytni, fagmennsku og ábyrgð sem hvílir á starfsfólki, stjórnum og sjálfboðaliðum félaganna umfram lagalegar skyldur.

ÁBYRGÐ GAGNVART ALMENNINGI, FJÖLMIÐLUM OG SAMFÉLAGI

 • Aðildarfélög veita áreiðanlegar og réttar upplýsingar sem skýra samhengi þess sem kynnt er hverju sinni. Þess skal gætt að notkun fræðilegra hugtaka og tölfræði séu aldrei villandi eða óaðgengileg almenningi.
 • Aðilar Almannaheilla starfa sjálfstætt að markmiðum sínum. Þau hafa hagsmuni almennings og umbjóðenda sinna að leiðarljósi.
 • Aðildafélög gæta þess að starf þeirra í þágu almennings takmarkist ekki af skuldbindingum eða þrýstingi stjórnvalda eða annarra hagsmunaaðila.
 • Aðilar að Almannaheillum hafa umhverfissjónarmið ávallt að leiðarljósi í rekstri sínum og sýna með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.

ÁBYRGÐ GAGNVART SKJÓLSTÆÐINGUM, FÉLAGSMÖNNUM, NOTENDUM, UMBJÓÐENDUM OG STYRKTARAÐILUM

 • Aðilar að Almannaheillum bera ábyrgð á starfi sínu og sýna öllum virðingu og trúnað.
 • Gagnsæi um starfsemi félagsins skal tryggt og veittar skulu áreiðanlegar og skýrar upplýsingar um starfsemina.
 • Aðilar Almannaheilla mismuna ekki þeim sem þeir eiga í samskiptum við, hvorki á grunni þjóðernis, kyns, kynhneigðar, fötlunar, trúar, skoðana eða annars fjölbreytileika.
 • Almannaheill leitast við að styrkja mannlega reisn með því að beita sér gegn misvirðingu gagnvart manneskjum, þar á meðal einelti, kynbundinni- og kynferðislegri áreitni og ofbeldi.
 • Almannaheill og aðilar að samtökunum misnota hvorki stöðu sína né bregðast trausti þeirra sem þau eiga í samskiptum við.

ÁBYRGÐ STJÓRNA, STARFSFÓLKS OG SJÁLFBOÐALIÐA

 • Stjórnir, starfsfólk og sjálfboðaliðar vinni af heilindum að markmiðum og tilgangi Almannaheilla og aðildarfélaga.
 • Stjórnir, starfsfólk og sjálfboðaliðar nýta ekki trúnaðarupplýsingar í eiginhagsmunaskyni eða í þágu vina eða skyldmenna.
 • Stjórnir, starfsfólk og sjálfboðaliðar gæta þess að hafa hagsmuni þeirra félagasamtaka sem þeir starfa fyrir ávallt að leiðarljósi, meðal annars með því að láta tímabundið eða alfarið af trúnaðarstörfum komi upp álitamál er varða þá persónulega.
 • Stjórnir, starfsfólk og sjálfboðaliðar virða störf annarra félaga og samtaka, sýna hver öðrum virðingu, samstarfsvilja og stuðning og stuðla að framgangi verkefna.

ÁBYRG FJÁRMÁL ALMANNAHEILLASAMTAKA

 • Meðferð fjármuna skal vera samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og skoðun reikninga í höndum kjörinna skoðunarmanna eða endurskoðenda.
 • Upplýsingar um fjárhag og rekstur skulu vera gagnsæjar og settar fram á einfaldan og skýran máta.
 • Öll fjáröflun skal hafa skýr markmið og fara fram í samræmi við tilskilin leyfi. Áætlað kostnaðarhlutfall liggi fyrir áður en safnanir hefjast og er gert upp að söfnun lokinni.
 • Upplýsingar um ágóðahlut af hvers kyns sölu eru birtar strax og þær liggja fyrir.
 • Aðildarfélög gæta þess að tengjast ekki aðilum sem starfa í ósamræmi við tilgang og markmið þeirra.
 • Aðilar að Almannaheillum afla ekki fjár með nokkrum þeim hætti sem telja mætti siðferðilega vafasaman.
 • Starfsfólk gætir ráðdeildar í daglegum rekstri og við meðferð fjármuna félagsins.

GILDISSVIÐ OG VIÐBRÖGÐ VIÐ BROTUM

 • Siðareglur þessar eru birtar á heimasíðu Almannaheilla og aðildarfélög skulu fylgja þeim. Þær eiga við um alla sem taka að sér störf fyrir Almannaheill.
 • Stjórn Almannaheilla tekur við ábendingum um brot á þessum siðareglum og bregst við þeim. Stjórnin úrskurðar í hverju tilfelli hvort um brot sé að ræða, telji hún tilefni til að fjalla um ábendingu um slíkt. Við meðferð mála skal gæta trúnaðar, meðalhófs og andmælaréttar.
 • Brjóti aðili að Almannaheillum gegn siðareglum þessum skal hann í samráði við stjórn Almannaheilla bæta fyrir brotið eins og hægt er, leita sátta og birta eða leiðrétta viðeigandi upplýsingar eða gera aðra þá bragarbót sem þurfa þykir.
 • Þess skal gætt að sá sem leggur fram upplýsingar um ætlað brot á siðareglunum, beri ekki skaða af.
 • Aðilar Almannaheilla geta eftir atvikum sett sér sértækar siðareglur í samræmi við þessar reglur og eftir þörfum starfsvettvangs síns.

Samþykkt á aðalfundi Almannaheilla 2. júní 2022

Skildu eftir svar