Stofnsamningur

 Almannaheill – samtök þriðja geirans

1.
Félög og sjálfseignarstofnanir, sem starfa að almannaheill, hafa ákveðið að stofna með sér heildarsamtök með það að markmiði að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum. Með undirritun þessa samnings skuldbinda þau sig til að stofna og starfa innan þessara heildarsamtaka eftir meðfylgjandi samþykktum þeirra í þrjú ár. Að þessum þremur árum liðnum verður tekin ákvörðun um framhald eða slit samtakanna. Stofnaðilar eru þeir taldir sem undirrita stofnsamninginn fyrir árslok 2008.

2.
Fyrstu þrjú árin verður áhersla lögð á að ná fram eftirfarandi breytingum:

  1. Skattalögum verði breytt á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattstofni. Ennfremur verði slíkum félögum og samtökum heimilað að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar.
  2. Sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur.
  3. Ímynd félaga sem starfa í almannaþágu verði efld til muna meðal almennings. Að þessum verkefnum skal unnið af stjórn samtakanna og starfshópum sem í eiga sæti fulltrúar stofnaðilanna ásamt fagfólki.

3.
Kjörin stjórn og ráðinn framkvæmdarstjóri skulu vera í fyrirsvari fyrir frjálsa félagastarfsemi á þeim sviðum sem samþykktir samtakanna og stofnsamningur þessi ná til svo og vera tengiliðir við stjórnvöld og fjölmiðla. Þá skulu þau hafa umsjón með verkefnahópum samtakanna á sviði skattamála og löggjafarmála og afla fjár til starfseminnar.

4.
Tekjur Samtakanna almannaheill verða með þrennum hætti: Árgjöld stofnaðila, styrkir frá því opinbera og stuðningur frá fyrirtækjum og sjóðum. Árgjöld verða tvenns konar eftir stærð stofnaðila: Stór samtök, með meira en 100 milljóna kr. veltu árið 2007, greiði 100.000 krónur, en lítil samtök og einstök félög greiði 25.000 krónur.

Tekjum verður varið til greiðslu ýmiss rekstrarkostnaðar, s.s. launa, skrifstofukostnaðar (húsaleigu, síma, tölvukostnaður o.fl.), funda- og ferðakostnaðar.

Undirrituð félagasamtök og sjálfseignarstofnanir skuldbinda sig til að hlíta framangreindum ákvæðum stofnsamnings þessa svo og samþykktum samtakanna Almannaheill.

Reykjavík 26. júní 2008

Skildu eftir svar