Ás styrktarfélag: Heimsmarkmiðin fjalla sérstaklega um jaðarsetta hópa

Heimsmarkmiðin og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks tala vel saman, segir Þóra Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags. „Ás styrktarfélag berst og hefur barist fyrir réttindum fólks með fötlun, sérstaklega fólks með þroskahömlun, frá því félagið var stofnað 1958. Í heimsmarkmiðunum er talað fyrir almennum réttindum allra og þau eiga að ná til allra jarðarbúa en ekki ákveðinna hópa. Þetta er mjög sterk skilaboð um þátttöku allra í samfélaginu. Mikilvægt er að fatlað fólk sem aðrir taki þátt í að búa til betri heim í einu og öllu með margbreytileika og margskonar sjónarmið að leiðarljósi. Það skiptir alla máli að vera hluti af samfélagi manna og leggja sitt af mörkum, ekki síst þá sem oft eru jaðarsettir eða tilheyra minnihlutahópi,“ segir hún.

 

Þóra segir félagið vera í upphafsskrefum þess að innleiða heimsmarkmiðin alla starfsemi félagsins og þá verða heimsmarkmiðin tekin upp í stefnu félagsins á árinu. Nú þegar er hafin vinna við að innleiða þau sjö markmið sem valin hafa verið til að vinna með í  verkefninu „Vinna & virkni“.

Áhersla á sjö markmið

Þessi sjö markmið eru heimsmarkmið 1, 4, 8, 10, 12, 14 og 15. Fyrsta heimsmarkmiðið fjallar um baráttuna gegn fátækt. „Í undirmarkmiði þess er meðal annars fjallað um að fólk í viðkvæmri stöðu skuli eiga jafnan rétt til efnahagslegra bjargráða, sem gæti verið vinna á almennum atvinnumarkaði, en mikið vantar upp á að það verði að veruleika,“ segir Þóra. „Undir sama markmiði er einnig fjallað um aðgengi að grunnþjónustu og eignarhaldi á og umráðum yfir landi og eignum. Hér er verk að vinna til að gera fólki með þroskahömlun þetta kleift.“

Heimsmarkmið 4 fjallar um aðgengi að menntun, en þar er meðal annars fjallað um fólk í viðkvæmri stöðu og fatlanir. Þóra segir að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist þá búi einstaklingar með þroskahömlun enn ekki við sömu tækifæri varðandi lengri menntunarmöguleika og starfsnám.

Heimsmarkmið 8 fjallar um góða atvinnu og hagvöxt og fjallar Ás styrktarfélag um það út frá atvinnumálum fatlaðra og þátttöku á almennum vinnumarkaði. „Hér leitum við að fyrirtækjum sem vilja stíga skrefin með okkur og sýna samfélagslega ábyrgð með því að bjóða fólki með þroskahömlun vinnu með sömu nálgun og fyrir aðra. Þátttaka þessa hóps er innan við 25 prósent á almennum vinnumarkaði á heimsvísu og því til mikils að vinna að auka þessa þátttöku, öllu samfélaginu til heilla.“

Heimsmarkmið 10 fjallar um aukinn jöfnuð. Þóra segir að þátttaka í öllum athöfnum daglegs lífs, sem og atburðum, eigi að vera öllum opin og aðgengileg. Ekki megi útiloka með neinum aðgerðum aðgengi fólks á grundvelli fötlunar. „Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýrt kveðið á um þetta,“ segir hún. „Fólk á að geta tekið þátt í félagslífi, stjórnmálum og hversdagslegum félagslegum athöfnum.“

Að lokum skipti umhverfismálin alla máli og þar hefur félagið sett markmið 12, 14 og 15 í forgang. „Þar tökum við þátt með beinum sýnilegum hætti með endurvinnslu og nýtingu til þess að draga úr sóun og minnka úrgang. Þá höfum við dregið úr notkun plasts og annarra efna sem menga vatn og annað umhverfi.“