Sjálfboðaliðar geta verið skaðvaldar ef umgjörð og skiplag eru ekki í lagi

Sjálfboðaliðar eru forsenda fyrir starfi margra félagssamtaka. Í stjórnum slíkra samtaka eru þeir leiðandi hvað varðar hugmyndir og forgangsröðun; í grasrótarstarfinu eru þeir aðilarnir sem koma til skila þeim gæðum sem viðkomandi samtök standa fyrir. Það er krafturinn og örlætið sem einkennir þá. Þeir hafa oft einlæga trú á og mikla hluttekningu og tengingu við tilgang viðkomandi samtaka – og sérstakan skilning á því sem virkar á vettvangi. Margir sjálfboðaliðar í skátastarfi hafa vaxið upp innan hreyfingarinnar og öðlast færni og reynslu sem þeir deila með einstaklingum sem koma nýir í hópinn.

Þessum krafti og þessari auðlind þarf þó að stýra vandlega. Sú sérstaka ástríða sem einkennir sjálfboðaliða getur orðið truflandi og skaðleg þegar einstaklingar eru settir í hlutverk sem henta þeim ekki eða þeir beðnir um að vinna óraunsæ verkefni. Deilur, kvartanir frá þeim sem eiga að njóta starfsins og jafnvel hótanir um málaferli geta leitt af slíku. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa duglega fagmenntaða stjórnendur sjálfboðaliða.

Þegar lítið þjálfaðir fullorðnir einstaklingar eru settir í stjórnunarstörf án viðeigandi þjálfunar eru þeir berskjaldaðir og útsettir fyrir athugasemdum og aðfinnslum. Þeim fer að líða illa og hóparnir sem þeir stýra reyna að finna aðrar leiðir til að bjarga sér.

En þjálfun ein og sér er ekki nóg. Sem félagssamtök erum við ábyrg fyrir því að setja reglur sem vernda sjálboðaliða á vettvangi. Þær þurfa að fela í sér skýrar, skriflegar hlutverkalýsingar sem eru samþykktar af báðum aðilum (ekki starfslýsingar, þar sem ekki er um að ræða launaða vinnu og lagalega skiptir sá munur máli). Skýrt skipunarferli er líka mikilvægt – er þessi einstaklingur fær um og æskilegur til að hafa hlutverk í viðkomandi félagssamtökum? Sjálfboðaliðinn á að fá viðeigandi innsetningu í hlutverkið, skýrar upplýsingar um gagnvart hverjum hann eða hún ber ábyrgð, um samkomulag og væntingar aðila um tímalengd, um viðeigandi þjálfun og reglubundið endurmat. Á að endurnýja skipunina? Er tímabært að beina starfskröftum viðkomandi að öðru hlutverki eða ætti hann eða hún að draga sig í hlé – að sjálfsögðu með einlægu og merkingarbæru þakklæti samtakanna. Að sjálfsögðu er líka gott tækifæri til að segja: „Þakka þér fyrir. Þú ert að sinna hlutverki þínu vel. Værir þú til í að halda áfram?“

Ekki hvetja til ótímabundinna skipana – slíkt skilur sjálfboðaliðann eftir með tilfinningu fyrir einhverju sem er endalaust og skilur stjórnendur eftir með takmarkaðar lausnir ef þörf fyrir aðgerðir koma upp vegna tiltekinna atburða eða ástæðna. Fólk breytist, félagasamtök breytast og það verður að vera möguleiki á sveigjanleika.Skilvirk stjórnun og skýrar reglur er það minnsta sem við getum boðið þeim sem vinna óeigingjörn og ómetanleg sjálfboðaliðsstörf. Við megum ekki hræðast að setja markið hátt – sjálfboðaliðar okkar, sem leggja sig fram um að gera sitt besta og vinna mikið, eru það mikilvægasta í mörgum félagasamtökum og eiga skilið allan þann stuðning sem við getum veitt.

(þýðing: Ólafur Proppé – júlí 2013)

Skildu eftir svar