Landvernd: Nýta heimsmarkmiðin við undirbúning nýrra verkefna

„Við hljótum öll að vera sammála um að þetta er heimurinn sem við viljum lifa í,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um ástæðu þess að Landvernd hefur ákveðið að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í sinni daglegu starfsemi. „Í lögum Landverndar segir að samtökin skuli vinna að sjálfbærri þróun og veita heimsmarkmiðin okkur skýrt leiðarljós um hvað felst í henni. Heimsmarkmiðin voru einnig unnin með hætti sem við tökum til fyrirmyndar í okkar starfi, „bottom up“, það er með mjög breiðri aðkomu sem tryggði að markmiðin eru eins góð og þau eru.“

 

Sem dæmi þá nýtir Landvernd heimsmarkmiðin í undirbúningsfasa allra nýrra verkefna og uppfærslu eldri verkefna. Þá vísar félagið í markmiðin og undirmarkmið í styrkumsóknum og við námsefnisgerð, sem er mikilvægur hluti starfseminnar. Þar eru heimsmarkmiðin alltaf höfð að leiðarljósi.

Landvernd leggur helst áherslu á markmið 4, 11, 12, 13, 14 og 15, en sérstaklega 12-15, þar sem þau ríma vel við markmið samtakanna eins og þau eru skilgreind í lögum þeirra. „Þá munum við auka áherslu okkar á markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum á næstu árum eftir stefnumótandi félagsfund Landverndar, þar sem félagsmenn mótuðu stefnu samtakanna til næstu ára og lögðu mikla áherslu á loftslagsmálin. Við munum einnig auka áherslu á markmið 17 um samvinnu um markmiðin og munum reyna að teygja okkur út fyrir okkar kreðsu og vinna með breiðum hóp að þeim markmiðum sem við horfum helst til.“

Auður segir hlutverk félagasamtaka við innleiðingu heimsmarkmiðanna vera mikið því þær samfélagsbreytingar sem þurfi að verða byrji oft í þriðja geiranum. „Ef við erum búin að koma okkur saman um að þetta séu markmiðin, þá er lykilatriði að starfa að þeim í grasrótinni,“ segir hún. „Markmiðin voru enda unnin út frá grasrót, frekan en embættismönnum.“

Auður bendir á myndir frá stefnumótandi félagsfundi í síðasta mánuði: https://www.facebook.com/landvernd/photos/pcb.10156304390903893/10156304389383893/?type=3&theater