Almannaheill ályktar

Almannaheillasamtök eru eðlilegir bandamenn hins opinbera.

Íslensk almannaheillasamtök hafa ekki látið sitt eftir liggja í glímunni við afleiðingar efnahagskreppu þjóðarinnar. Þau hafa létt undir með einstaklingum og hópum sem orðið hafa fyrir barðinu á fylgifiskum kreppunnar með ýmsum hætti, t.d. vinnu sjálfboðaliða og fjárhagslegum stuðningi, sem oftast er fenginn beint frá almenningi. Þau hafa einnig skapað ný úrræði, hlaupið undir bagga með opinberum aðilum og jafnvel tekið að sér verkefni og mikilvæga þjónustu sem ríki og sveitarfélög sjá sér ekki lengur fært að sinna.

Það skýtur því skökku við að opinberir aðilar skuli við þessar aðstæður draga úr stuðningi sínum við almannaheillasamtök. Þetta hefur þó gerst í nokkrum mæli á undanförnum mánuðum og boðaður niðurskurður birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir 2010. Dæmi eru um að álögur hafi beinlínis verið auknar á félagasamtök, t.d. með hækkun fjármagnstekjuskatts í sumar. Þessi skattur gæti hækkað enn frekar á næstunni vegna boðaðra aðgerða ríkisins og lent á almannaheillasamtökum af meiri þunga.

Íslensk almannaheillasamtök bera nú þegar mun þyngri skattbyrðar en sambærileg samtök í helstu viðmiðunarlöndum okkar. Erlend samtök eru yfirleitt undanþegin bæði fjármagnstekjuskatti og erfðafjárskatti, sem íslensk almannaheillasamtök greiða að fullu. Sýnt hefur verið fram á að íslensk samtök búa af öðrum ástæðum við verra skattalegt starfsumhverfi en hliðstæð samtök í nágrannalöndum – þau mega því alls ekki við því að staða þeirra versni. Getur verið að opinberir aðilir meti ekki í sama mæli og annars staðar það gagn sem samfélagið hefur af starfi almannaheillasamtaka?

Ríki og sveitarfélög ættu að gera sér ljósa grein fyrir því að almannaheillasamtök eru eðlilegir bandamenn þeirra við lausn á samfélagslegum verkefnum og þjónustu. Engir eru betur til þess fallnir að fylkja fólki saman til lausnar á stórum og smáum verkefnum sem bæta samfélagið en eimitt þessi samtök. Þetta á sérstaklega við þegar miklir erfiðleikar steðja að samfélaginu. Stuðningur við almannaheillasamtök skilar sér margfalt aftur til samfélagsins, því að sjálfboðastörf áhugafólks auka verðmæti hverrar krónu sem lögð er til þjónustu þeirra við almenning.

Reykjavík, 8. október 2009,

fyrir hönd Almannaheilla, samtaka þriðja geirans,

Guðrún Agnarsdóttir, formaður

Aðildarfélög Almannaheilla:

Aðstandendafélag aldraðra
Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi
Bandalag íslenskra skáta
Félag CP á Íslandi
Geðhjálp
Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs
Heimili og skóli, landssamtök foreldra
Hjartavernd
Hjálparstarf kirkjunnar
Krabbameinsfélag Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Landssamtökin Þroskahjálp
Landvernd
Neytendasamtökin
Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum
Ungmennafélag Íslands
Öryrkjabandalag Íslands

Skildu eftir svar