Vörpum ljósi á þriðja geirann

Fimmti desember er dagur sjálfboðaliðans. Næsta ár, 2011, verður evrópskt ár sjálfboðaliðans. Þessa verður minnst víða þar sem verðmætt og mikilvægt hlutverk og framlag sjálfboðaliða og samtaka þeirra til samfélagsins er metið og í hávegum haft. Löng hefð er fyrir sjálfboðaliðastarfi hjá nágrannaþjóðum okkar, bæði austan hafs og vestan, sem hefur með fjölbreyttum hætti styrkt samfélagið og velferðarmál af ýmsu tagi og létt þannig á hlutverki hins opinbera. Það sama má segja hér á landi þar sem rannsóknir hafa sýnt að um 40% landsmanna sinna sjálfboðaliðastarfi. Hafa nágrannaþjóðir okkar metið þetta mikla framlag með því að létta af sjálfboðaliðasamtökum og frjálsum félagasamtökum skattaálögum til að auðvelda störf þeirra og svigrúm. Þessi samtök sem starfa án fjárhagslegrar hagnaðarvonar hafa oft verið skilgreind sem þriðji geirinn og er þá miðað við opinbera geirann annars vegar og einkageirann hins vegar. Þessu hefur verið öðruvísi varið hér á landi þar sem frjáls félagasamtök og almannaheillasamtök njóta ekki slíkrar skattalegrar meðferðar. Starfs- og rekstrarumhverfi þriðja geirans er ekki lagalega skilgreint ef borið er saman við opinbera og einkageirann. Almannaheill, samtök þriðja geirans voru stofnuð 26. júní 2008 og standa nú að þeim 19 aðildarfélög fjölbreyttra og mjög fjölmennra félagasamtaka. Þessi samtök hafa um langt skeið lagt mjög verðmætan skerf til íslensks samfélags með sjálfboðaliða- og hugsjónastarfi. Samtökin voru stofnuð með þrjú aðalmarkmið í huga. Í fyrsta lagi að

  1. Skattalögum verði breytt á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattsstofni. Ennfremur verði slíkum félögum og samtökum heimilað að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar.
  2. Sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur.
  3. Ímynd félaga sem starfa í almannaþágu verði efld til muna meðal almennings.

Fyrir atbeina Almannaheilla var skipuð nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem nú hefur skilað skýrslu um mat á mikilvægi þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Brýnt er að sú skýrsla komi sem fyrst til umræðu og umfjöllunar. Nýlega var opnað Fræðasetur þriðja geirans við Háskóla Íslands. Meginhlutverk þess er að efla rannsóknir, þróunarverkefni og fræðslu á sviði þriðja geirans og almennra félaga sem starfa án hagnaðarvonar. Að setrinu standa Félagsráðgjafardeild og Stjórnmálafræðideild í samvinnu við Almannaheill-Samtök þriðja geirans. Setrið verður staðsett í Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Dr. Ómar H. Kristmundsson, prófessor og Dr.Steinunn Hrafnsdóttir, dósent veita setrinu forstöðu. Verkefnisstjóri þess er Gestur Páll Reynisson. Fræðasetrið mun verða mikilvægur bakhjarl fyrir starfsemi samtaka þriðja geirans. Almannaheill hafa sett sér siðareglur og verið virk í umræðu og málþingum um málefni þriðja geirans. Þau hafa nýlega ráðið sér starfsmann og hyggjast verða enn virkari í því að vekja skilning og áhuga almennings og stjórnvalda á mikilvægu starfi almannaheillasamtaka í þágu samfélags okkar á ári sjálfboðaliðans 2011. Guðrún Agnarsdóttir formaður Almannaheilla

Skildu eftir svar