Vel sóttur aðalfundur Almannaheilla 2009

Aðalfundur Almannaheilla var haldinn 19. maí sl., kl. 15-17:00 í húsakynnum Krabbamainsfélags Íslands við Skógarhlíð 8 í Reykjavík.

Guðrún Agnarsdóttir formaður samtakanna setti fundinn, flutti skýrslu stjórnar og rifjaði upp helstu atburði á þessu fyrsta starfsári samtakanna.

Árni Páll Árnason, nýskipaður félagsmálaráðherra, ávarpaði fundinn og fagnaði starfi Almannaheilla. Hann sagði frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki við veitingu almannaþjónustu og að treysta þyrfti rekstrargrunn félagasamtaka. Æskilegt væri að búa almannaheillasamtökum sjálfbæran rekstrargrundvöll og eyða þyrfti tortryggni í þeirra garð með setningu gagnsærra reglna.

Á fundinum var aðild nýrra samtaka borin upp og var aðild þeirra samþykkt samhljóða. Nýir aðilar eru Þroskahjálp, Umhyggja, CP-félagið, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Hjartavernd. Eru nú samtals 19 samtök aðilar að samtökunum.

Eftirfarandi aðilar voru kosnir í stjórn og varastjórn Almannaheilla:

Formaður: Guðrún Agnarsdóttir
Aðrir stjórnarmenn: Björgólfur Thorsteinsson, Einar Haraldsson, Eva Þengilsdóttir, Jónas Guðmundsson, Jónas Þórir Þórisson og Kristinn Halldór Einarsson.

Varastjórn: Björk Einisdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Júlíus Aðalsteinsson, Kristín Jónasdóttir, Stefán Halldórsson, Sveinn Magnússon og Vilmundur Gíslason

Tillaga stjórnar um að breyta nafni samtakanna í ALMANNAHEILL – SAMTÖK ÞRIÐJA GEIRANS var samþykkt samhljóða.

Björn B. Jónsson fundarstjóri sleit fundi um kl. 17:00 og kvaddi menn með hvatningarorðum.

Sjá nánar í fundargerð og skýrslu stjórnar.

Skildu eftir svar