Vel heppnuð málstofa um mikilvægi heildarlöggjafar um starfsemi þriðja geirans

Almannaheill og Fræðasetur þriðja geirans við Háskóla Íslands hafa nú í samvinnu við velferðarráðuneytið kynnt áhugaverða skýrslu starfshóps um mikilvægi þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.
Í fjölsóttri hádegismálstofu sem haldin var 14. febrúar í Lögbergi af þessu tilefni ræddi ráðherra velferðarmála Guðbjartur Hannesson við fundargesti um mikilvægt hlutverk þriðja geirans í samfélaginu og fjallaði um hugmyndir sem hafa þarf í huga við gerð heildarlöggjafar um starfsemi þriðja geirans. Auk ráðherra fluttu framsögu Ómar H. Kristmundsson prófessor sem var formaður starfshópsins og Eva Þengilsdóttir MPA sem var fulltrúi almannaheilla í hópnum.
Til málstofunnar mættu fulltrúar helstu félagasamtaka og sjálfseignarstofnana landsins sem margir hverjir vörpuðu fram spurningum eða hugleiðingum um málefni er tengjast starfsgrundvelli og skattheimtu ríkisins á frjáls félagasamtök. Einnig kom fram að mikilvægi þriðja geirans hefur sjaldan verið jafn mikið og einmitt nú, en á sama tíma er orðið erfiðara að afla fjár og starfsskilyrði hafa versnað. Í þessu ljósi er mikilvægt að skapa frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum betri rekstrarskilyrði með svipuðum hætti og nágrannalönd okkar hafa gert í áratugi.
Skýrslu starfshópsins um heildarlöggjöfina má finna á heimasíðu velferðarráðuneytisins og hvetjum við alla þá sem málefnið varðar að kynna sér vel innihald hennar.
Skýrsluna er að finna hér: http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/32657

Skildu eftir svar