30) Fundur stjórnar Almannaheilla

30.   fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn fimmtudaginn 15. febrúar, 2011, kl. 16.30, að Skógarhlíð 8,  Reykjavík.

Mætt: Guðrún Agnarsdóttir, Bergur Ólafsson, Einar Haraldsson, Eva Þengilsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Júlíus Aðalsteinsson,  Kristinn H. Einarsson, Olga Möller,  og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð .

Þetta var gert:

  • 1. Fagnað var málþingi, sem haldið var daginn áður, um álit nefndar um þörf á setningu heildarlöggjafar um félagasamtök og sjálfseignarstofnanir. Niðurstaða nefndarinnar var að mæla með að sett yrðu sérstök lög um rekstrarform félagasamtaka. Guðbjartur Hannesson, ráðherra velferðarmála, sagðist á málþinginu taka undir þá kröfu um formfestu sem kæmi fram í nefndarálitinu; búa þyrfti til „umgjörð sem hvetur en ekki letur”, bætti hann við. Ráðherra hefur þegar lagt fram og fengið samþykkt í ríkisstjórn minnisblað um að vinnu­hópur verði settur á laggirnar til að vinna að smíði frumvarps á grundvelli nefndarálitsins. Hann tók sérstaklega fram að Almannaheill myndu eiga aðild að þessum vinnuhópi.
  • 2. Á fundinum var rætt um viðbrögð Almannaheilla við þeim tíðindum sem felast í nefndar­álitinu sem áður var nefnt og samþykkt ríkisstjórnarinnar þar að lútandi. Voru reifaðar ýmsar hugmyndir um hlutverk Almannaheilla í því ferli sem er að fara af stað. Samþykkt var að byrja á að skrifa bréf til efnahags- og viðskiptaráðherra, en hann mun taka við forræði í málinu, fagna niðurstöðu nefndarinnar og afstöðu ríkisstjórnarinnar til hennar, samþykkja að tilnefna í vinnuhóp um samningu nýrra laga, óska eftir að vinnuferlið verði opið með þátttöku margra, og bjóðast til að sjá um framkvæmd málþinga eða ráðstefna þar sem safnað yrði saman hugmyndum og sjónarhornum inn í frumvarpsvinnuna. Formaður mun gera uppkast að slíku bréfi.
  • 3. Verkefnisstjóri sagði frá fundi sem haldinn var með fulltrúum ráðuneyta og félaga­samtakanna Evrópa unga fólksins um evrópskt ár sjálfboðaliða. Er unnið að því að gera tillögur um atburði tengda árinu. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um einstaka atburði en fleiri fundir eru fyrirhugaðir.
  • 4. Rætt var um fleiri viðburði á vegum Almannaheilla á komandi mánuðum. Kannaður verður nánar grundvöllur fyrir námskeið um fjármál og rekstur félagasamtaka. Þá er stefnt að stórum fundi í mars/apríl með aðildarfélögum Almannaheilla og væntanlegum aðildarfélögum um endurnýjun á stofnsamningi samtakanna og starfið á komandi árum.
  • 5. Ritari skýrði frá bréfaskiptum við ráðgjafa sem tók þátt í gerð samnings sænsku ríkisstjórnarinnar og samtaka sveitarfélaga í Svíþjóð við þriðja geirann í landinu. Er hún tilbúin til að ráðleggja Almannaheill varðandi samning af þessu tagi hér á landi. Velferðarráðherra hefur í samtali við fulltrúa Almannaheilla lýst sig reiðubúinn til að skoða gerð slíks samnings. Þá benti ráðgjafinn á samtökin Socialforum, sem eru eins konar systursamtök Almannaheilla í Svíþjóð.
  • 6. Formaður minnti á könnun á skattgreiðslum aðildarfélaga og styrkjum sem þau njóta frá opinberum aðilum. Bað hún verkefnisstjóra að hlutast til um að könnuninni verði lokið.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18.00.

Skildu eftir svar