Stjórnarfundur 7. nóvember 2013

Fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn fimmtudaginn 7. nóvember, 2013, kl. 15.30, að Sigtúni 42,  Reykjavík.

Mætt: Ólafur Proppé, Hildur Helga Gísladóttir, Jóna Fanney Friðriksdóttir og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

1.       Fundargerð

Afgreiðslu fundargerðar frá 3. október s.l. var frestað.

2.       Breytingar á stjórn

Farið var yfir breytingar sem eru yfirvofandi á skipan stjórnar Almannaheilla. Þrír stjórnar­menn hafa gefið til kynna að þeir hyggist jafnvel ganga úr stjórn vegna breyttrar stöðu þeirra innan aðildarfélaga. Þannig hefur Anna M.Þ. Ólafsdóttir, varformaður, þegar sagt sig formlega úr stjórninni.

3.       Staða vinnu við samningu lagafrumvarps

Ekki lágu fyrir fundinum nýjar fréttir af samningi frumvarps til laga um félagasamök. Vonir standa þó til að þeirri vinnu ljúku á næstu dögum. Einnig standa vonir til að Almannaheill fái kynningu á frumvarpsdrögunum fljótlega.

4.       Vefkönnun meðal aðildarfélaga

Farið var yfir niðurstöður vefkönnunar meðal núverandi aðildarfélaga Almannaheilla. Fjallaði hún um viðhorf til Almannaheilla og þekkingu á starfi samtakanna. Frestað var frekari umræðu þar sem Ketill, sem sá um úrvinnslu könnunarinnar, var ekki mættur á fundinn.

5.       Átak til að fjölga aðildarfélögum Almannaheilla

Formaður kynnti átak til að fjölga aðildarfélögum Almannaheilla. Hafa verið rituð bréf til 11 heildarsamtaka. Verður haft samband við samtökin á næstunni og settir upp fundir fulltrúa úr stjórn Almannaheilla með forystufólki þessara samtaka.

6.       Umsjón með vefsíðu

Samþykkt var að fela Jónu Fanneyju umsjón með vefsíðu Almannaheilla. Áður hafði Anna, varaformaður, séð um síðuna.

7.       Stefnumótunarumræða

Rætt var um stefnu, áherslur og verkefni Almannaheilla á næstunni í ljósi þess að stærsta verkefni samtakanna til þessa, lagafrumvarpið, er að komast í höfn. Í upphaflegri stefnumótun samtakanna var, auk nýrra laga og skattareglna, lögð áhersla á setningu siðareglna (sem settar voru 2010) og eflingu ímyndar almannaheillasamtaka í landinu. Önnur verkefni hafa verið rædd, s.s. mótun tengslaneta, fræðslustarf, ráðgjöf, upplýsingamiðlun og efling virðingar fyrir sjálfboðastarfi. Ákveðið var að fá Erlu Þrándardóttur, sem ritað hefur doktorsritgerð um málefni félagasamtaka, til skrafs og ráðagerða.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.10.

Skildu eftir svar