Frjáls félagasamtök vinna samfélaginu mikið gagn

Á aðalfundi Almannaheilla – samtaka þriðja geirans – í sl. mánuði kom fram að vinna við lagafrumvarp um frjáls félagasamtök á vettvangi almannaheilla væri nú langt komin í nefnd á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Verði lögin að veruleika verða í þeim skilgreind þau skilyrði sem félög þurfa að uppfylla til að teljast vinna að almannaheillum. Jafnframt verður þá ákveðið hvort þau geti á grundvelli starfa sinna fengið ívilnanir á borð við endurgreiðslu af skatti, s.s. vegna aðfanga, erfðagjafa og fleiri þátta. Almannaheill hefur haft frumkvæði að þessari lagasmíð. Ragna Árnadóttir, fyrrum formaður Almannaheilla, er formaður nefndarinnar.

Nýr formaður Almannaheilla var kosinn á aðalfundinum, Ólafur Proppé fyrrum rektor Kennaraháskóla Íslands og fyrrum formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Markmið nýrrar stjórnar er að fylgja lagavinnunni eftir, en hún er stórt hagsmunamál félagasamtaka sem vinna að almannaheill. Þá verður lögð áhersla á að fjölga aðildarfélögum, sem nú eru 20, taka saman upplýsingar og kynna almenningi umfang og eðli alls þess framlags sem þriðji geirinn leggur til samfélagsins. Einnig verður efnt til námskeiða og málþinga um þau fjölmörg sameiginleg hagsmunamál þriðja geirans. Þeim sem vilja gerast aðilar að samtökunum er bent á að hafa samband við stjórnarfólk eða í gegnum http://www.almannaheill.is/

Nýja stjórn skipa:

Ólafur Proppé formaður
Anna M. Þ. Ólafsdóttir varaformaður
Hildur Helga Gísladóttir gjaldkeri
Jón Pálsson ritari

Guðmundur Magnússon meðstjórnandi
Jónas Guðmundsson meðstjórnandi
Ragnheiður Haraldsdóttir meðstjórnandi

 

Skildu eftir svar