Skýrsla stjórnar 2014

Skýrsla stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, fyrir starfsárið júni 2013 til maí 2014

Almannaheill, samtök þriðja geirans, voru stofnuð 26. Júní 2008 eftir talsvert undirbúningsstarf og hafa því starfað í sex ár. Stofnaðilar voru tólf félög og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheill og markmiðið að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum.

Fleiri félög hafa bæst í hópinn og fyrir aðalfund samtakanna 12. júní 2014 voru eftirtalin félög og sjálfseignarstofnanir aðilar að Almannaheillum:

  1. Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi
  2. Bandalag íslenskra skáta
  3. Geðhjálp
  4. Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs
  5. Heimili og skóli – landssamtök foreldra
  6. Hjartavernd
  7. Hjálparstarf kirkjunnar
  8. Krabbameinsfélag Íslands
  9. Kvenfélagasamband íslands  EKKI NEFNT Í AÐILDARFÉLAGALISTANUM. ÞETTA VIRÐIST ALLT MJÖG Á REIKI OG VÆRI GOTT AÐ FÁ ENDANLEGA Á HREINT.
  10. Kvenréttindafélag íslands
  11. Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands
  12. Landssamtökin Þroskahjálp
  13. Neytendasamtökin
  14. Samtök sparifjáreigenda
  15. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna
  16. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
  17. Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum
  18. Ungmennafélag Íslands
  19. Vinir Vatnajökuls
  20. Öryrkjabandalag Íslands

Stjórn Almannaheilla 2013-2014

Aðalfundur Almannaheilla 2013 var haldin í húsi Krabbameinsfélags Íslands 3. júní 2013. Á fundinum var kosin stjórn samkvæmt lögum samtakanna. Eftirtaldir skipuðu stjórn og varastjórn Almannaheilla eftir aðalfundinn:

Aðalstjórn:

  1. Anna M. Þ. Ólafsdóttir                       Hjálparstarf kirkjunnar
  2. Guðmundur Magnússon Öryrkjabandalag Íslands
  3. Hildur Helga Gísladóttir    Kvenréttindafélag íslands
  4. Jónas Guðmundsson                       Neytendasamtökin
  5. Jón Pálsson                                        Ungmennafélags Íslands
  6. Ólafur Proppé                                     Bandalag íslenskra skáta
  7. Ragnheiður Haraldsdóttir                 Krabbameinsfélagið

 

Varastjórn:

  1. Bryndís Snæbjörnsdóttir   Styrktarfél. lamaðra og fatlaðra
  2. Bryndís Torfadóttir                             Umhyggja
  3. Bylgja Valtýsdóttir                              Hjartarvernd
  4. Gerður Aagot Árnadóttir    Þroskahjálp
  5. Jóna Fanney Friðriksdóttir               Landvernd
  6. Ketill B. Magnússon                          Heimili og skóli
  7. Steinunn Hrafnsdóttir                        Fræðasetur þriðja geirans

 

Ólafur Proppé var kjörinn formaður stjórnarinnar, en samkvæmt lögum samtakanna skipar hún að öðru leyti sjálf með sér verkum. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund var ákveðið að Anna M. Þ. Ólafsdóttir gegndi störfum varaformanns, Hildur Helga Gísladóttir störfum gjaldkera og Jón Pálsson störfum ritara. Anna M. Þ. Ólafsdóttir, Gerður Aagot Árnadóttir og Guðmundur Magnússon tóku ekki þátt í störfum stjórnar eða varastjórnar frá hausti 2013 vegna breytinga sem urðu innan viðkomandi aðildarfélaga.

Haldið var þeirri venju að boða bæði aðalstjórn og varastjórn á alla stjórnarfundi. Stjórnin hélt tíu bókaða fundi á árinu.

Fjölgun aðildarfélaga

Á árinu var unnið að kynningu á starfi Almannaheilla hjá nokkrum félagasamtökum sem vinna að almannaheill í þeim tilgangi að fjölga aðildarfélögum. Þetta er mikilvægt verkefni og nauðsynlegt að halda því áfram á komandi starfsári. Fjögur öflug félög hafa sótt um aðild að Almannaheillum á starfsárinu og hefur stjórn fullvissað sig um að þau uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í lögum Almannaheilla og samþykkt þær umsóknir fyrir sitt leyti. Það bíður aðalfundar að staðfesta formlega inntöku þessara félaga. Þessi félög eru:

  1. Barnaheill – Save the chidren á Íslandi
  2. Landssamband eldri borgar
  3. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann
  4. Skógræktarfélag Íslands

Viðræður eru í gangi við nokkur fleiri félagasamtök um aðild. Mikilvægt er að fjölga aðildarfélögum til að efla Almannaheill enn meira en orðið er og gera þeim kleift að beita sér enn betur fyrir haugsmunum þriðja geirans.

 

Vefkönnun meðal aðildarfélaga

Vefkönnun var send á aðildarfélög Almannaheilla í október 2013.  Spurt var um mat á starfsemi Almannaheilla, væntingar til starfsins og um starfsemi aðildarfélaganna, alls níu spurningar.Spurðir voru framkvæmdastjórar og formenn félaganna, samtals 35 einstaklingar.Alls svöruðu 17 manns svo svarhlutfallið var 49%.

Helsti lærdómurinn af þessari könnun er að Almannaheill eru ekki í nægjanlega sterkum tengslum við aðildarfélögin. Lágt svarhlutfall annars vegar (49%) og lágt hlutfall þeirra sem eru ánægðir með starfsemi Almannaheilla (einungis 30% á meðan þeir sem taka ekki afstöðu eru 47%) eru skýrar vísbendingar um það. Vísbendingar eru um að aðildafélögin hafi væntingar um að félagsaðild að Almannaheillum færi þeim meira en raunin er. Það bendir til að upplýsingagjöf um hlutverk og starf Almannaheilla sé ábótavant.  Margt bendir til að forstöðumenn aðildarfélaganna telji að Almannaheill gæti gert meira af að leiðbeina um góða starfshætti félagasamtaka og stuðla að skýru lagalegu starfsumhverfi.

Næstu skref gætu falist í að:

  • Skerpa á starfsemi Almannaheilla svo unnið sé betur í takt við megin hlutverk samtakanna.
  • Auka upplýsingastreymi til félaga.
  • Koma á gangkvæmri samræðu við félagsmenn um starfsemi Almannaheilla og endurtaka svona kannanir með reglubundnum hætti.

 

Vinna við frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla

Nefnd undir forystu Rögnu Árnadóttur, fyrverandi formanns Almannaheilla, sendi stjórn Almannaheilla drög að frumvarpi til umsagnar í byrjun janúar sl. Kom Ragna ásamt tveimur öðrum nefndarmönnum á fund stjórnar 23. Janúar og kynnti drögin. Stjórn vann síðan með drögin og skilaði umsögn til nefndarinnar. Þá boðaði stjórn til opins fundar með öllum aðildarfélaögum Almannaheilla 3. apríl þar sem laganefndin mætti öll og kynnti drögin. Urðu þar líflegar umræður og skoðanaskipti um frumvarpsdrögin.

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um frjáls félagasamtök sem starfa að almannaheillum.

Forsögu frumvarpsins má rekja til þess að í nóvember 2012 skipaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra nefnd sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum. Í nefndinni áttu sætu Ragna Árnadóttir, þáv. formaður Almannaheilla, Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Ingibjörg Helga Helgadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar var Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að með frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum sem starfa að almannaheillum sé átt við frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að vinna að heill ótiltekins fjölda manna án hagnaðarsjónarmiða þeirra sem reka og stýra félaginu. Þá sé einnig átt við sjálfseignarstofnanir, sem hafa samskonar markmið og uppfylla skilyrði laganna. Var nefndinni einkum ætlað að fjalla um hvaða skilyrði slík félög þurfi að uppfylla til að geta notið réttinda og borið skyldur samkvæmt lögunum. Nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um skattaumhverfi almannaheillasamtaka, m.a. að því er varðar niðurfellingu skatts af aðföngum, sérreglur um erfðafjárskatt og skatt af gjafafé. Þá var nefndinni einnig ætlað að huga að löggjöf um almannaheillasamtök í nágrannaríkjum Íslands, svo sem efni stæðu til.

Þess er vænst að laganefndin skili lokadrögum að fullbúnu frumvarpi til ráðuneytisins í sumar og að það verði svo lagt fram sem stjórnarfrumvarp á Alþingi næsta haust. Almannaheill binda miklar vonir  við að nú sjáist til lands í þessu mikla baráttumáli samtakanna og að lög um félagasamtök til almannaheilla verði afgreidd frá næsta Alþingi. Slík löggjöf skiptir þriðja geirann allan afar miklu máli þegar til framtíðar er litið. Lagaleg umgjörð félagasamtaka til almannaheilla hér á landi er vanþróuð í samanburði við helstu viðmiðunarlönd okkar.

Málstofa um regluverk og lagaumhverfi félagassamtaka í Bretlandi

Stjórn Almannaheilla fékk dr. Erlu Þrándardóttur, gestafræðimann við City University í London, á fund til sín 3. janúar sl. Erla er sérfróð um málefni þriðja geirans á alþjóðavettvangi og þó einkum í Bretlandi. Það varð að samkomulagi að Erla myndi halda fyrirlestur um regluverk og lagaumhverfi félagassamtaka í Bretlandi á málþingi á vegum Almannaheilla og Fræðaseturs þriðja geirans við Háskóla Íslands 13. maí. Þar flutti Erla afar áhugaverðan og upplýsandi fyrirlestur  um efnið

 

Erla Þrándardóttir lauk BA prófi í félagslegri mannfræði frá Háskóla Íslands 1998. Erla stundaði meistaranám við Dalhousie University í Kanada og lauk þaðan meistaragráðu 2003 í International Development. Meistaraprófsritgerð hennar bar titilinn: „Evolution of Foreign Aid Thinking; Implications for the Icelandic Red Cross“. Erla stundaði svo doktorsnám við University of Manchester í Bretlandi og lauk þaðan doktorsgráðu (PhD) 2012. Í doktorsritgerð sinni kannaði hún innra lögmæti þriggja stórra félagasamtaka í Bretlandi (Amnesty, Cafod og Greenpeace) og valdajafnvægi landssamtakana við alþjóðlegar höfuðskrifstofur samtakanna.

 

Erla Þrándardóttir er búsett í Bretlandi. Hún er hluti af vinnuhópi á vegum BISA (British International Studies Association). BISA hefur um 25 vinnuhópa (working groups) og þetta er einn slíkur hópur, sjá http://bisa-ngo-workinggroup.org/  Vinnuhópurinn snýst um byggja upp tengslanet bæði milli þeirra sem starfa að rannsóknum og þeirra sem vinna við NGO-mál á öllum stigum, starfa í félagasamtökum eða eiga náin samskipti við NGOs (oftast ríkið-ríkisstofnanir). Þetta er nýr vinnuhópur sem stofnaður var í  janúar 2013. Vinnuhópurinn  miðar við að halda amk. einn fund og eina ráðstefnu á ári til að fjalla um hvað er í gangi í rannsóknum og hvaða málefni eru efst á dagskrá hjá NGO´s  – eða samtökum þriðja geirans.

 

Samstarf við velferðarráðuneytið

Að frumkvæði velferðarráðuneytisins kom Linda Rós Alfreðsdóttir starfsmaður ráðuneytisins á fund stjórnar Almannaheilla 6. mars til að ræða um aukið samstarf. Í framhaldi af því boðaði hún stjórn Almannaheilla á fund í ráðuneytinu 20. mars. Ráðherra hefur hug á að standa að samtali félagasamtaka til almannaheilla og stjórnmálaflokkanna. Þar sem Ísland fer með forystu í norrænu samstarfi þetta árið stendur til að halda samnorrænan fundur næsta haust hér á landi um þriðja geirann.  Hugmyndin er að fundurinn verði fagmannafundur og að lögð verði áhersla á að móta samskiptin milli þriðja geirans við stjórnvöld.   Þá var kynnt sú hugmynd um að boðað verði til opins fundar í tengslum við norræna fundinn.  Hugmyndum ráðuneytisins var vel tekið.

Þá kynntu fulltrúar Almannaheilla fyrirmyndir um árlega opna fundi almennings, opinbera geirans, einkageirans og þriðja geirans (almannaheillasamtaka) á hinum Norðurlöndunum. Hafa þær fyrirmyndir áður verið kynntar innan Almannaheilla sem áhugaverðar útfærslur á lýðræðislegu samstarfi þessara ólíku aðila. Hér fyrir neðan eru heimasíður þessara viðburða:

Í Finnlandi:           www.festival.fi

Í Noregi:                www.arendalsuka.no

Í Svíþjóð:               www.almedalsveckan.info/

Í Danmörku:         www.brk.dk/folkemoedet/Sider/Folkemoedet.aspx

Almannaheill hefur áhuga á samstarfi um að koma slíkum viðburði í framkvæmd hér á landi.

Starfsmaður – kynningarátak

Í mars sl. ákvað stjórn Almannaheilla að kanna möguleika  á að ráða, í samvinnu við Vinnumálstofnun, verkefnastjóra í tímabundið verkefni við kynningarmál samtakanna. Var Einar Steinn Valgarðsson ráðin í þrjá mánuði (tímabili sem lýkur um miðjan júlí n.k.). Hefur starf hans þegar borið nokkurn árangur, m.a. hefur hann stofnað til virkrar „Face Book-síðu“, eflt samskipti við aðildarfélögin og undirbúið uppfærslu til aukinnar virkni á heimasíðu samtakanna. Væntir stjórnin þess að unnt verði að byggja áfram á þeim grunni.

Staða Almannaheilla

Þó að stórt skref hafi verið stigið með stofnun Almannaheilla 2008 þarf enn að taka til höndum í málefnum samtaka þriðja geirans. Stór áfangi verður vissulega að baki þegar frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla verður að lögum – vonandi á næsta ári. En það þarf meira til. Það þarf áfram að leggja mikla vinnu í að kynna Almannaheill fyrir stórum og smáum félagasamtökum  sem enn hafa ekki slegist í hópinn – annað hvort vegna vanþekkingar á tilgangi samtakanna eða misskilnings sem stundum tengist hugmyndum um að sjálfstæði einstakra félaga geti verið hætt með þátttöku í Almannaheillum.  Almannaheill – samtök þriðja geirans snúast eingöngu um málefni sem tengjast sameiginlegum hagsmunum allra félagasamtaka til almannaheilla. Því fleiri félagasamtök og sjálfseignastofnanir sem vinna að almannaheill án hagnaðarsjónarmiða, þeim mun öflugri verður rödd þriðja geirans í samfélaginu og þeim mun minni líkur á mismunun eða óeðlilegum viðskiptaháttum.

skilgreina geirann sem allar ríkisreknar stofnanir,þ.e. ríkisrekstur í heild sinni

Almannaheillum er alls ekki ætlað að vera málsvari einstakra aðildarfélaga heldur að tala fyrir munn sameiginlegra hagsmuna þriðja geirans. Málefni sjálfboðaliða er einn slíkur þáttur, en langflest almannaheillasamtök eru borinn uppi að meira eða minna leyti af sjálfboðaliðum – oftast þó með einhverjum stuðningi starfsfólks á launum.  Framlag þessara sjálfboðaliða er mikilvægt fyrir þá sem njóta og samfélagið í heild, en líka fyrir þá einstaklinga sem þessum störfum sinna og fá umbun fyrir störf sín í ánægjunni af að gera gagn og vaxa og eflast sem einstaklingar. Annað sameiginlegt hagsmunamál allra almannaheillasamtaka er að skapa öruggan, lýðræðislegan og siðferðilega réttlætanlegan starfsramma um starf slíkra samtaka. Um það fjalla lögin sem við væntum að gangi í gildi á næsta ári. Slíkum starfsramma fylgja svo réttindi frjálsra félagasamtaka sem vinna að almannaheillum gagnvart stjórnvöldum, t.d. skattayfirvöldum, í líkingu við það sem gildir í löndunum í kring um okkur. Umræða um útfærslu á slíkum starfsramma er svo sameiginlegt viðfangsefni allra almannaheillasamtaka, hvers í sínu lagi og sameiginlega.

Almannaheill – samtök þriðja geirans er sem félag borið uppi af sjálfboðaliðum í dag. Samtökin þurfa nauðsynlega að eflast svo að unnt verði að ráða framkvæmdastjóra stjórninni til stuðnings og til þess að unnt verði að fylgja málum betur eftir og efla tengslin við aðildarfélögin. Góður framkvæmdastjóri í fullu starfi mundi efla framlag sjálfboðaliðanna. Til þess að svo megi verða er ein leið fær – þ.e. að fjölga aðildarsamtökunum og mynda þannig breiðari grunn fyrir starfssemina. Auk þess er athugandi að samtökin taki að sér þjónustuverkefni fyrir stjórnvöld sem væru fólgin í að fylgja eftir nýjum lögum, þegar þau hafa öðlast gildi. Almannaheill eiga ekki að verða félag með umfangsmikinn rekstur fram yfir þann sem felst í að koma fram fyrir hönd sameiginlegra hagsmuna þriðja geirans, standa fyrir, í samvinnu við aðildarfélögin, umræðu um málefni þriðja geirans og efla skilning stjórnvalda og alls almennings á mikilvægu hlutverki og framlagi þriðja geirans í samfélginu.

 

12. júní 2014

Ólafur Proppé, formaður Almannaheilla

Skildu eftir svar