Kynning á lokadrögum að frumvarpi til laga um félagssamtök til almannaheilla

Stjórn Almannaheilla boðaði til fundar með fulltrúum allra aðildarfélaga samtakanna 3. apríl s.l. í Skátamiðstöðinni við Hraunbæ. Fundarefnið var kynning á lokadrögum að frumvarpi til laga um félagssamtök til almannaheilla. Fjöldi fulltrúa aðildarfélaga Almannaheilla mætti á fundinn, kynntu sér framgang málsins og lögðu ýmislegt til málanna.

Að sögn Ólafs Proppé, formanns Almannaheilla er hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir öll félagasamtök sem vinna að almannaheillum.

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um frjáls félagasamtök sem starfa að almannaheillum.

Forsögu frumvarpsins má rekja til þess að í nóvember 2012 skipaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra nefnd sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum. Í nefndinni áttu sætu Ragna Árnadóttir, þáv. formaður Almannaheilla, Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Ingibjörg Helga Helgadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar var Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Kynnti nefndin aðildarfélögum Almannaheilla lokadrög að frumvarpi til laga um félagasamtök til almannaheilla á fundinum þann 3. apríl sl.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að með frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum sem starfa að almannaheillum sé átt við frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að vinna að heill ótiltekins fjölda manna án hagnaðarsjónarmiða þeirra sem reka og stýra félaginu. Þá sé einnig átt við sjálfseignarstofnanir, sem hafa samskonar markmið og uppfylla skilyrði laganna. Var nefndinni einkum ætlað að fjalla um hvaða skilyrði slík félög þurfi að uppfylla til að geta notið réttinda og borið skyldur samkvæmt lögunum. Nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um skattaumhverfi almannaheillasamtaka, m.a. að því er varðar niðurfellingu skatts af aðföngum, sérreglur um erfðafjárskatt og skatt af gjafafé. Þá var nefndinni einnig ætlað að huga að löggjöf um almannaheillasamtök í nágrannaríkjum Íslands, svo sem efni stæðu til.

Skildu eftir svar