Stjórnarfundur 20. febrúar 2014

Fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn fimmtudaginn 20. febrúar, 2014, kl. 16.00, að Sigtúni 42,  Reykjavík.

Mætt: Bryndís Torfadóttir, Jóna Fanney Friðriksdóttir, Ketill Magnússon, Ragnheiður Haraldsdóttir og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð og stýrði fundi í forföllum formanns.

Þetta var gert:

1.  Fundargerð
Afgreiðslu fundargerða var frestað.

2.  Drög að frumvarpi til laga um félagasamtök til almannaheilla
Farið var yfir álit Almannaheilla á drögum að frumvarpi til laga um félagasamtök til almannaheilla. Álitið er bráðabirgðaálit, gert fyrir nefndina sem semur frumvarpið. Fyrir fundinum lá uppkast að bréfi stjórnarinnar til nefndarinnar þar sem gerðar eru nokkrar athugasemdir við greinar frumvarpsins en tekið undir meginefni þess. Gerðar voru nokkrar smávægilegar lagfæringar á texta bréfsins og það síðan samþykkt sem álit samtakanna.

3.  Fundur með aðildarfélögum
Rætt var um að halda fund með aðildarfélögum Almannaheilla til kynningar á efni væntanlegs frumvarps. Var samþykkt að leggja til við formann að aðildarfélögunum verði boðið að senda fulltrúa á næsta stjórnarfund Almannaheilla, 6. mars n.k., þar sem fram færi stutt kynning á frumvarpinu. Jafnframt var lagt til að fundurinn verði kl. 8.30 í stað 15.00 eins og fundaáætlun samtakanna gerir ráð fyrir.

4.   Málstofa um þriðja geirann í Bretlandi

Í bígerð hefur verið að bjóða Dr. Erlu Þrándardóttur að halda fyrirlestur á vegum Almannaheilla um bresk almannaheillasamtök, sem hún hefur rannsakað í tengslum við doktorsverkefni hennar við Háskólann í Manchester. Var ákveðið að leggja til að málstofan verði haldin 13. maí n.k.  Gert er ráð fyrir að málstofan verði frá kl. 12 til 14 í húsnæði Háskóla Íslands. Var samþykkt að fela Jónu Fanneyju Friðriksdóttur og Steinunni Hrafnsdóttur að undirbúa málstofuna.

5.  Kynningarverkefni um sjálfboðaliða
Framhaldið var umræðu frá síðasta fundi um að Almannaheill efni til kynningarverkefnis um gildi sjálfboðastarfs. Hugmyndin er að ráða verkefnisstjóra í tímabundið starf til að móta hugmyndina og koma henni í framkvæmd. Samþykkt var að ráðast í verkefnið. Var Katli Magnússyni, Ólafi Proppé og Jónasi Guðmundssyni falið að kanna nokkur atriði málsins á næstu vikum og leggja útfærða áætlun fyrir næsta stjórnarfund. Einnig verður kannað hjá aðildarfélögum hvort þau hafa lausa vinnuaðstöðu fyrir verkefnisstjórann.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.10.

Skildu eftir svar