Heildarlöggjöf í brennidepli á Félagaþingi Almannaheilla

Almannaheill – samtök þriðja geirans héldu fjölmennt málþing um helgina til undirbúnings lagasetningar um frjáls félagasamtök. Fulltrúar helstu félagasamtaka landsins mættu til þingsins ásamt fulltrúum ráðuneyta og ræddu þá þætti sem þeir telja mikilvæga í nýrri löggjöf um starfsemi í þriðja geiranum.

Í kjölfar skýrslu sem kynnt var í febrúar síðastliðnum á málþingi á vegum Almannaheilla og Fræðaseturs þriðja geirans í samvinnu við velferðarráðuneytið fól ríkisstjórnin efnahags- og viðskiptaráðherra að undirbúa lagasetningu um félagasamtök og sjálfseignarstofnanir. Almannaheill ákváðu því að boða til þessa félagaþings til að gera hagsmunaaðilum kleift að koma hugmyndum sínum og sjónarmiðum á framfæri fyrir gerð lagasetningarinnar.
Niðurstöður þingsins voru fjölmargar og voru skattamálin ofarlega í huga flestra. Athugasemdir og sjónarmið voru rædd er lúta að skattaumhverfi frjálsra félagasamtaka og töldu þátttakendur afar mikilvægt að bæta skattalega meðferð slíkra samtaka hér á landi og verði þá miðað við það sem gert er í nágrannalöndum okkar. Almannaheill munu leggja sérstaka áherslu á skattamálin. Umræður urðu t.d. einnig um meðferð fjármuna, þar sem yfirsýn, upplýsingamiðlun og gegnsæi verði tryggt. Ennfremur var rætt um ábyrgð stjórna, formfestu og hvernig hægt sé að tryggja ábyrga og lýðræðislega stjórnun, virkt eftirlit með fjárreiðum, bókhaldi og endurskoðun félaga. Ennfremur um mikilvægi gæðaeftirlits þar sem félög veita þjónustu í samvinnu við hið opinbera.

Eitt af markmiðum með setningu nýrra laga er að bæta rekstrarumhverfi frjálsra félagasamtaka og gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu. Sú umræða og þau sjónarmið sem fram komu á þinginu staðfesta að forsvarsmenn félagasamtaka og stofnana vilja leggja sitt af mörkum til þess.
Niðurstöður þingsins verða afhentar efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Hægt er að nálgast niðurstöður þingsins hér að neðan. Um tvö skjöl eru að ræða:
1) Skjal með samantekt um niðurstöður þingsins
2) Ýtarlegt skjal með niðurstöðum umræðna
Nánari upplýsingar veitir:
Bergur Ólafsson
Verkefnisstjóri
bergur@almannaheill.is
Gsm 662 8500

Skildu eftir svar