Grein eftir formann Almannaheilla – „Sjálf­boða­liða­sam­tökin stóðu vaktina“

Jónas Guðmundsson skrifar:

Sjálfboðaliðasamtök létu til sín taka fyrir og um nýliðna jólahátíð, eins og oft áður. Mesta athygli vakti vaskleg framganga björgunarsveita við að bjarga mönnum og dýrum og forða eignatjóni. Titill greinarinnar er einmitt fenginn að láni úr uppgjöri einnar útvarpsstöðvar á glímunni við desemberóveðrið. Ýmsum kom á óvart hve árvekni og afl viðbragðsaðila var mikið. En fleiri sjálfboðaliðasamtök létu til sín taka; hjálpar- og stuðningssamtök hópa, sem eiga í vök að verjast, léttu sínu fólki byrðarnar af krafti — bentu okkur hinum um leið á vanda þessa fólks. Ýmis önnur samtök notuðu tækifærið til að kynna hugmyndir sínar og drauma um lausnir á þrálátum vandamálum — bentu á hvernig gera megi samfélagið mannvænlegra, samheldnara, sjálfbærara og betur búið undir framtíðina ef við beitum afli okkar og tíma með jákvæðari hætti en við eigum vanda til.

Þannig birtist með skýrari hætti en venjulega hve mikilvægu hlutverki almannaheillasamtök, eins og þau eru nú nefnd, gegna í íslensku samfélagi. Þau bregðast við, búa til lausnir og hafa áhrif á þjóðfélagsþróunina til lengri tíma — má rifja upp að 12 samtök kvenna hrintu af stað byggingu Landspítalans, þeirrar undirstöðu­stofnunar samfélagsins.

Almannaheillasamtaka bíða á nýju ári margar áskoranir og óleyst mál, ekki síst brýn vandamál margs ungs og eldra fólks, sem á erfitt með að fóta sig við núverandi aðstæður. Samtökin munu, ein og sér eða í samstarfi, án efa leita að betri úrræðum; lofi þau góðu munu samtökin eins og endranær leita stuðnings almennings með tíma, vinnu, ráðgjöf, hluti og fjármuni til að koma verkefnum í framkvæmd. Almenningur hefur hingað til verið örlátur á stuðning við góð málefni sem bæta brotalamir í samfélaginu.

Það myndi líka hjálpa til ef Alþingi yrði við óskum um að bæta starfsumhverfi almannaheilla­samtaka. Nokkuð hefur þokast á undanförnum árum með að bæta skattaumhverfi slíkra samtaka, sem enn er talsvert lakara en gengur og gerist í helstu samanburðarlöndum; nefnd á vegum fjármálaráðherra er að skoða hvað hægt er að gera frekar í þeim efnum. En almannaheillasamtök bíða líka eftir lagasetningu sem skilgreinir raunverulegt rekstrarform þessara samtaka.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um félög til almannaheilla, flutt af iðnaðarráðherra. Þetta er þriðja frumvarpið sama efnis sem flutt er af ráðherra málaflokksins. Segja má að málið hafi verið á dagskrá í áratug, en Almannaheill, samtök þriðja geirans, hvöttu fyrst til slíkrar lagasetningar. Síðan hefur málið verið vandlega undirbúið, m.a. af tveimur ráðherraskipuðum nefndum. Það nýtur eindregins stuðnings Almannaheilla og allra 35 aðildarfélaga þess, sem mörg eru landssamtök, með vel á annað hundrað þúsund félagsmenn, og margra annarra almannaheillasamtaka í landinu. Samt hefur leið þess í gegnum löggjafarsamkomuna reynst torfær.

Almannaheillasamtök óska eftir þessari lagasetningu til þess að starfsrammi þeirra verði skýrari; til þess að réttindi og skyldur þeirra verði betur skilgreind; til þess að stuðla að lýðræðislegri uppbyggingu slíkra samtaka og ýta undir góða stjórnarhætti þeirra; síðast en ekki síst til þess að traust á milli almannaheilla­samtaka, almennings og opinberra aðila megi eflast — það gerði samtökin öflugri til að taka á verkefnum sem bíða úrlausnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. janúar síðastliðinn.