Árni Einarsson skrifar:
Í þessari viku, þann 5. desember, er haldið upp á alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Þetta er ekki einn af þessum dögum sem vekja mikla athygli og umtal. Tilefni hans varðar þó okkur öll.
Tilvist og starfsemi almannaheillasamtaka er hugsanlega sjálfsögð, en við leiðum hugann lítið að því hvaða þýðingu slík samtök hafa. En ef þau hyrfu af vettvangi yrðum við áþreifanlega vör við mikilvægi þeirra. Sum samfélagsleg verkefni myndu hreinlega hverfa. Margt af því sem við tökum sem gefnu nú er afrakstur frumkvæðis og baráttu almannaheillasamtaka. Leiðum hugann að því.
Nánast daglega varðar starfsemi almannaheillasamtaka líf okkar á einhvern hátt, svo sem starf íþróttafélaga, æskulýðsfélaga, foreldrafélaga, félaga í menningar- og listalífi, réttindamálum, velferðarmálum, stjórnmálum og þjónustu af ýmsum toga. Þar standa vaktina þúsundir fólks sem ver ómældum vinnustundum endurgjaldslaust í okkar þágu og samfélagsins.
Almannaheillasamtök hafa einnig miklu lýðræðishlutverki að gegna. Þau eru vettvangur okkar til þess að hafa áhrif á þróun samfélagsins; vettvangur þar sem við æfum okkur í þeim grundvallarleikreglum sem lýðræðið byggir á, ræðum hlutina í návígi, tökumst á um skiptar skoðanir, leitum samstöðu, leggjum línur um leiðir og framkvæmd verkefna sem ákveðið er að ráðast í.
Ég hef varið stærstum hluta ævi minnar í að starfa á vettvangi almannaheillasamtaka og verið spurður að því hvernig í ósköpunum ég nenni að ,,eyða“ tímanum í eitthvað sem ég fæ ekkert fyrir. Ég lít ekki þannig á. Fyrir utan tækifærið til þess að taka þátt í að móta umhverfi og samfélag, er það vettvangur til þess að kynnast og starfa með fjölda góðra manna og kvenna sem auðga tilveruna og næra mennskuna. Það er ekki svo lítils virði.
Dagur sjálfboðaliðans er kjörið tækifæri til þess að leiða hugann að mikilvægi almannaheillasamtaka og finna sér félag eða samtök til þess að skrá sig í. Það er ein leið til þess að hafa áhrif á gang mála í samfélaginu.
Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 2. janúar síðastliðinn.