Fundur fólkins 16. og 17. september

Fundur fólksins verður haldinn í Norræna húsinu og Grósku hugmyndahúsi, núna um helgina, föstudaginn 16. september og laugardaginn 17.september. Almannaheill stendur fyrir tveimur viðburðum á laugardeginum í Grósku, kl. 14:00 og kl. 15:00. Streymt verður frá öllum viðburðum sem fara fram í Norræna húsinu og Grósku.Tilgangur Fundar fólksins er að skapa vandaðan vettvang þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálafólks og frjálsra félagasamtaka, þar sem lýðræði og opin skoðanaskipti eru leiðarstefið. Fundur fólksins er sjálfstæð hátíð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum á Íslandi eða annars staðar.

Fjölmargir áhugaverðir viðburðir eru á dagskránni í ár og má þar nefna viðburði um áhrif barna og ungmenna á stefnumótun í loftslagsmálum, sjálfbær og örugg matvælakerfi, íbúalýðræði og starfsumhverfi almannaheillasamtaka. Hægt er að skoða heildardagskrána á heimasíðu hátíðarinnar fundurfolksins.is. Við hvetjum alla til að mæta í Vatnsmýrina og taka þátt í samtalinu. Aðgangur er ókeypis á alla viðburði.

Viðburðir Almannaheilla í Grósku, laugardaginn 17. september:

Kl. 14:00 – Að breyta heiminum? Samfélagsleg nýsköpun, velferð og heimsmarkmiðin

Kynning frá Steinunni Hrafnsdóttur, prófessor í félagsráðgjöf og forsvarskonu Vaxandi – miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun við HÍ – og Stefaníu G. Kristinsdóttur – doktorsnema og samfélagsfrumkvöðuls. Fjallað verður um WELFARE “Designing the future welfare systems” verkefnið, sem snýst um að byggja upp þverfaglegan vettvang, þjálfun og stuðning við samfélagsfrumkvöðla hvort sem er innan stofnana, sveitarfélaga, þriðja geirans eða samfélagsdrifinna fyrirtækja.

Kl 15:00 – Gjörbreytt starfsumhverfi almannaheillasamtaka?

Pallborðsumræður þar sem farið verður yfir hvernig til hefur tekist við innleiðingu tveggja nýrra laga, um félög til almannaheilla og skattamál samtaka sem starfa að almannaheill, sem móta að stórum hluta starfsumhverfi þessara samtaka.

Þátttakendur í umræðunum eru:
Andri Árnason, framkvæmdastjóri Takk
Helgi Björnsson, fjármálastjóri Krabbameinsfélagsins
Sigurjón Páll Högnason, lögfræðingur hjá KPMG.

Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla stýrir umræðum.

Í ár verða jafnframt viðburðir og/eða kynningarbásar frá aðildarfélögunum IOGT á Íslandi, Landvernd, Öryrkjabandalagi Íslands og ADHD samtökunum.

Sjáumst í Vatnsmýrinni!