Tímamót – stofnun heildarsamtaka um Almannaheill

Samtökin almannaheill

Þann 26. júní 2008 voru stofnuð Samtökin almannaheill sem er samstarfsvettvangur félaga og sjálfseignarstofnana sem vinna að almannaheill á Íslandi. Samtökunum er ætlað að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa í almannaþágu, skapa þessum aðilum hagfellt starfsumhverfi, styrkja ímynd þeirra og efla stöðu þeirra í samfélaginu. Ennfremur að vera málsvari þeirra gagnvart opinberum aðilum og samfélaginu, stuðla að umræðu og þrýsta á aðgerðir stjórnvalda í málefnum þeirra. Sambærileg heildarsamtök tíðkast í flestum nágrannalanda okkar og hafa starfað þar um langt árabil með góðum árangri.

Sérstök áhersla verður lögð á þrjú verkefni: Að vinna að einföldu og bættu skattaumhverfi til samræmis við stöðu slíkra félaga í nágrannalöndunum. Að stuðla að skýrari réttarstöðu og traustara rekstrarumhverfi með því að sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur. Að skýra fyrir opinberum aðilum og samfélaginu hlutverk almannaheillasamtaka og sjálfseignarstofnana og beina sjónum að gagnsemi þeirra fyrir íslenskt samfélag.

Eftirfarandi samtök gerðust stofnfélagar á fundinum: Aðstandendafélag aldraðra, Blindrafélagið, Bandalag íslenskra skáta, Geðhjálp, Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, Heimili og skóli-Landssamtök foreldra, Hjálparstofnun kirkjunnar, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Landvernd, Neytendasamtökin, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Ungmennafélag Íslands, Öryrkjabandalag Íslands. Fleiri félög hafa lýst áhuga á þátttöku og verður hægt að gerast stofnfélagi fram að næstu áramótum en það er styrkur samtakanna að svo mörg ólík félög skuli sjá sér hag í slíkum heildarsamtökum.

Frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir teljast til þess athafnasviðs þjóðfélagsins sem jafnan er kallað þriðji geirinn samhliða opinbera geiranum annars vegar og einkageiranum hins vegar. Hlutur þriðja geirans í því að tryggja velferð og hagsæld í samfélagi okkar er ríkur en hefur gjarnan verið vanmetinn. Þó virðist sem stjórnvöld séu að átta sig betur á umfangi og mikilvægi þessa framlags og er því mikilvægt að heildarsamtök innan geirans skilgreini markmið sín og þarfir til að tryggja farsælt samstarf.

Formaður samtakanna er Guðrún Agnarsdóttir, varaformaður Björn B. Jónsson, gjaldkeri Kristinn Halldór Einarsson og ritari Jónas Guðmundsson en meðstjórnendur Björgólfur Thorsteinsson, Eva Þengilsdóttir og Jónas Þórir Þórisson. Í varastjórn eru Björk Einisdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Júlíus Aðalsteinsson, Kristín Jónasdóttir, Stefán Halldórsson, Sveinn Magnússon og Vilmundur Gíslason. Nánari upplýsingar fást hjá Guðrúnu Agnarsdóttur, gudrunag@krabb.is og í síma 540 1900 og 896 8587.

Skildu eftir svar