1 ) Fundur stjórnar Samtakanna Almannaheilla 27.06.2008

  • 1. fundur stjórnar Samtakanna almannaheilla, haldinn föstudaginn 27. júní 2008, kl. 13.15, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Mætt: Björgólfur Thorsteinsson, Björn B. Jónsson, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Kristinn Halldór Einarsson og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð. Þetta var gert:

  • 1. Rætt var um kynningu á stofnun samtakanna og áformum þeirra. Haft hefur verið samband við nokkra fjölmiðla. Fréttatilkynning verður send út eftir helgi og henni fylgt eftir með sambandi við fréttamenn.
  • 2. Rætt var um hvernig kynningarstarfi og ímyndarsköpun verður haldið uppi til frambúðar. Ákveðið að athuga möguleika varðandi gerð vefsíðu eða bloggsíðu. Athugað verði með stuðning veffyrirtækja og fagfólks við slíkt verkefni. Eva og Kristinn taka að sér að mynda hóp sem kannar og kortleggur þessa möguleika, leggur mat á kostnað og safnar hugmynum um hvaða helstu kynningarmöguleikar koma til greina.
  • 3. Stjórnin skipti með sér embættum, öðrum en formannsembættinu, sem Guðrún Agnarsdóttir var kjörin til með beinni kosningu á stofnfundi:

Varaformaður er Björn B. Jónsson Gjaldkeri er Kristinn Halldór Einarsson Ritari er Jónas Guðmundsson Meðstjórnendur eru Björgólfur Thorsteinsson, Eva Þengilsdóttir og Jónas Þórir Þórisson.

  • 4. Gjaldkeri tekur að sér að sækja um kennitölu fyrir samtökin og síðan, með fulltingi stjórnarinnar, að opna bankareikning. Hann tekur ennfremur að sér að færa bókhald samtakanna fyrst um sinn.
  • 5. Stjórnin stefnir að því að efna til ráðstefnu í haust, líklega í október, um málefni almannaheillasamtaka. Verður leitað eftir samvinnu við aðra aðila, t.a.m. báða stóru háskólana í Reykjavík, um undirbúining og framkvæmd hennar. Stefnt að því að erlendir fyrirlesarar verði á ráðstefnunni.
  • 6. Stjórnin varð sammála um að fara sér hægt í að efna til útgjalda, s.s. að ráða fólk til starfa. Verður það ekki gert fyrr en starfsemin hefur verið mótuð frekar, stjórnin hefur sannreynt hvaða verkefni er brýnast að vinna og fjárhagsgrunnur samtakanna hefur verið treystur. Var rætt um að ráðning starfsmanns yrði í fyrsta lagi í byrjun nýs árs.
  • 7. Stjórnin var sammála um að fjáröflun samtakanna myndi um fyrirsjáanlega framtíð beinast að innheimtu aðildargjalda og sókn eftir stuðningi opinberra aðila. Verða lögð drög að því að hitta 2-3 ráðherra í þessu skyni.
  • 8. Ákveðið að boða varamenn í stjórn á stjórnarfundi. Fundargerðir verða fyrst sendar til þeirra sem sótt hafa viðkomandi fundi en síðar, þegar athugasemdir hafa verið afgreiddar, til allra aðildarsamtaka.
  • 9. Næsti stjórnarfundur verður haldinn þriðjudaginn 8. júlí, kl. 12, að Skógarhíð 8. Þar er ætlunin að ræða um hugmyndir sem væntanlegar eru frá stjórnvöldum um breytt starfsumhverfi félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að heilbrigðismálum.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15.00

Skildu eftir svar