6) Fundur stjórnar Almannaheilla 22.01.2009

  • 6. fundur stjórnar Samtakanna almannaheilla, haldinn mánudaginn 22. janúar 2009, kl. 8.30, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Mætt: Björn B. Jónsson, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Kristinn Halldór Einarsson,  Vilmundur Gíslason og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

  • 1. Formaður gerði grein fyrir að þrjú félög hefðu fyrir áramót sótt um að verða stofnaðilar að Samtökunum almannaheill. Þetta eru Umhyggja, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og CP-félagið. Þau hafa öll skilað inn samþykktum sínum. Samþykkt var að taka þessi félög inn sem stofnaðila, með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar Almannaheilla síðar.
  • 2. Samþykkt var að ganga til samninga við SPRON um bankaviðskipti. Í framhaldi af því mun aðildarsamtökum verða sendir reikningar fyrir aðildargjöldum ársins 2009.
  • 3. Farið yfir hönnun á vefsíðu samtakanna. Fundarmönnum leist vel á uppsetninguna og komu með nokkrar ábendingar um frekari útfærslu. Eva mun senda stjórnarmönnum aðgang að tilraunasíðunni. Ætlunin er að opna vefsíðuna fyrir almennum aðgangi í næstu viku.
  • 4. Formaður skýrði frá því að Krabbameinsfélaginu hefði borist fyrirspurn frá bandarísku fyrirtæki sem vildi styrkja félagið en hikaði við vegna óljósra reglna um slíkan stuðning á milli landanna. Félagið spurðist fyrir hjá bandaríska sendiráðinu og hafði samband við bandarísk skattayfirvöld, sem vísuðu málinu til lögfræðiskrifstofu. Ekki fékkst þó niðurstaða í málið. Rætt var um að þessi mál yrðu könnuð frekar á vegum Almannaheilla með hagsmuni íslenskra félagasamtaka í huga.
  • 5. Bent var á að opnuð hefði verið vefsíðan minningarkort.is, þar sem tekið væri við minningargjöfum til margra íslenskra góðgerðafélaga. Þetta virðist hafa verið gert án nokkurs samráðs eða samninga við félögin sem njóta eiga góðs af. Ekki er ljóst á hvaða forsendum þetta er gert eða hvernig skila á gjöfunum. Samþykkt var að afla frekari upplýsinga um þetta framtak.
  • 6. Rætt var um nýja reglugerð um „um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins” sem félags- og tryggingamálaráðuneytið gaf nýlega út. Í 10. gr. segir: „Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um að atvinnuleitandi taki þátt í sjálfboðaliðastarfi enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Vinnumála­stofnun, frjálsu félagasamtökin og atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn um samþykki sitt. Með undirritun sinni samþykkir atvinnuleitandinn að taka þátt í sjálfboða­liða­starfi sem hann hefur valið sér en samhliða starfi sínu sem sjálfboðaliði skal hann vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun greiðir atvinnuleitanda á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og skulu frjálsu félagasamtökin sjá til þess að atvinnu­leitandi sé slysatryggður við sjálfboðaliðastarfið”. Á þessu nýmæli verður vakin sérstök athygli á heimasíðu Almannaheilla.
  • 7. Ákveðið var að næstu fundir verði einu sinni á mánuði, á fimmtudagsmorgnum kl. 8.30: 19. febrúar, 19. mars, 23. apríl og 21. maí.

Skildu eftir svar