27) Fundur stjórnar Almannaheilla

27. fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn 25. nóvember 2010 kl. 08:30, að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Mætt: Björgólfur Thorsteinsson, Einar Haraldsson, Eva Þengilsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Jónas Þórir Þórisson, Júlíus Aðalsteinsson og Guðrún Agnarsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

1. Formaður kynnti niðurstöður vinnuhóps sem falið var að ræða við umsækjendur um starf verkefnastjóra en þau Eva Þengilsdóttir, Jónas Guðmundsson og  Guðrún Agnarsdóttir tóku viðtöl og gengu frá starfslýsingu og ráðningarsamningi. Rætt var við fjóra áhugasama umsækjendur og valdi vinnuhópurinn Berg Pálsson, í samráði við stjórn. Bergur er áhugsamur um félagsmál og hefur verið virkur í starfi hjá skátunum og einnig í stjórnmálum en hefur menntun á sviði viðskipta- og hagfræði við BI í Oslo auk mastersnáms í almannatengslum við sama skóla árið 2009. Hann hefur unnið við sölu- og markaðsmál hjá upplýsinga- og tæknifyrirtækjum. Gengið verður frá ráðningu í hálft starf í sex mánuði frá og með desember og gerður verktakasamningur við hann eftir stjórnarfundinn en hann mun þá koma og kynna sig fyrir stjórn.

2. Nefnd félags- og tryggingamálaráðherra hefur nú skilað skýrslu um heildarlöggjöf til velferðarráðherra en ekki víst að hann hafi haft tíma til að lesa hana enn. Verður leitað eftir því að haldið verði málþing með fyrirhuguðu Fræðasetri þriðja geirans og velferðarráðuneytinu til að kynna skýrsluna.

3. Fyrirhugað er að stofna Fræðasetur eða miðstöð þriðja geirans á morgun  hjá Félagsvísindasviði Háskóla Íslands og verður fundur í Odda þar sem Lars Svedberg prófessor mun halda erindi. Formaður Almannaheilla mun opna heimasíðu Fræðasetursins á fundinum.

4. Rætt var um evrópskt ár sjálfboðaliðans sem stendur til að halda á næsta ári og mikilvægi þess að Almannaheill vekji athygli á því málefni.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.00.

Skildu eftir svar