Fjármálaráðherra mælir með setningu heildarlaga um félagasamtök og endurskoðun skattareglna

Í umræðu sem fram fór nýlega á Alþingi vegna fyrirspurnar Eyglóar
Harðardóttur um skattalega stöðu frjálsra félagasamtaka, sagði
fjármálaráðherra frá skýrslu sem nefnd um skoðun heildarlöggjafar fyrir félagasamtök og
sjálfseignarstofnanir hefur skilað af sér, og vék að skattareglum sem um
þessa aðila gilda:

“Niðurstaða nefndarinnar var einmitt sú að leggja til að hafist yrði handa
um smíði löggjafar um félagasamtök og samhæfa sem sagt þar með löggjöf um
þessa aðila og lög um sjálfseignarstofnanir. Þá er komið auðvitað miklu
skýrara lagaumhverfi til að takast á við m.a. skattalega meðferð þessara
aðila þegar starfsemi þeirra hefur verið samræmd að þessu leyti til og
byggir á heildstæðri löggjöf. Það er alveg sjálfgefið og gott ef ekki er
einmitt komið inn á það sérstaklega í skýrslunni að þessu tengt sé ástæða
til að endurskoða skattumhverfi félagasamtaka. Það má því segja að næsta
skref sé frekar í höndum félags- og tryggingamálaráðherra en
fjármálaráðuneytisins en við erum að sjálfsögðu reiðubúin til þátttöku í því
starfi hvað varðar þá þætti sem snúa að skattalegum málum og
rekstrarumhverfi þessara aðila almennt. En ég held að nauðsynlegt næsta
skref í þessu sé það sem snýr að löggjöfinni og það eigi að setja þá vinnu
af stað. Samhliða geta menn þá skoðað hvort ástæða er til að gera breytingar
á skattamálunum. Væntanlega verður miklu auðveldara að ganga frá og útfæra
þær reglur þegar komin er ein heildstæð löggjöf utan um þennan málaflokk.“

Ráðherrann tók fram að hann lofaði ekki “neinni tiltekinni niðurstöðu”
fyrirfram og bætti við:

“…starfsemi þessara félagasamtaka er gríðarlega mikilvæg og þau lyfta víða
grettistaki. Ég held enda að engin deila sé um það og menn vilja að
sjálfsögðu tryggja þeim viðunandi og góð starfsskilyrði. Ég held að löggjöf
um þau sé mjög mikilvæg í þeim efnum og það mun auðvelda skattyfirvöldum,
bæði löggjafanum sem slíkum og þeim sem fara með skattaframkvæmd, lífið ef
skýr skilyrði og skýrir skilmálar eru í lögum um þessa starfsemi þannig að
síður þurfi að byggja framkvæmdina á því að fara ofan í samþykktir einstakra
félaga og skoða það nákvæmlega hvort þannig er um starfsemina búið, hvort
samþykktirnar eru þannig að þær uppfylli skilyrðin til undanþágu frá þessum
eða hinum skatti. Lög sem taka á þessu og samræma þetta eru tvímælalaust
góður undanfari þess að síðan sé hægt að endurskoða skattalegu hliðina.”

Fyrirspyrjandinn, Eygló Harðardóttir, benti á versnandi skattastöðu frjálsra
félagasamtaka hér á landi og rakti skerðingar og álögur sem á félögin hafa
verið lagðar af hálfu hins opinbera. Hún sagði m.a.:

„Það er staðreynd að skattastaða frjálsra félagasamtaka á Íslandi hefur
frekar farið versnandi á síðustu áratugum en hitt. Undanþágur voru stórlega
skertar með afnámi ákvæða um frádrátt af skattskyldum tekjum einstaklinga
vegna gjafa til góðgerðarfélaga árið 1979. Árið 1996 ákvað Alþingi líka að
félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt og síðan árið 2004 var
ákveðið að setja erfðafjárskatt á gjafir til líknarfélaga. Þetta er eitthvað
sem ég tel að við eigum að taka til baka. Þegar borið er saman við önnur
lönd kemur í ljós að undanþágur er að finna í Bandaríkjunum, Bretlandi,
Danmörku og ESB á þeim þremur sköttum sem ég hef bent hér á. Ég held að allt
bendi til þess að mjög mikil þörf verði á þessari tegund af félögum, af
frjálsum félagasamtökum, í samfélagi okkar þegar ríkið getur ekki tekið á
sig meiri byrðar, er frekar að skera mjög massívt niður en hitt. Þá þarf að
treysta stoðir frjálsra félagasamtaka þannig að þau geti tekið við
slakanum…”

Hlusta má  á umræðuna á
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20101122T153937&end=2010-1
1-22T15:52:04

Almannaheill hafa frá stofnun samtakanna árið 2008 beitt sér fyrir að
athuguð verði setning heildarlöggjafar fyrir félagasamtök og
sjálfseignarstofnanir og fyrir endurskoðun á skattareglum sem um þau gilda,
en að mörgu leyti eru þær strangari en í löndum sem við berum okkur helst
saman við.

Skildu eftir svar