24) Fundur stjórnar Almannaheilla

24.   fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn fimmtudaginn 9. september 2010, kl. 16, að Skógarhlíð 8,  Reykjavík.

Mætt: Guðrún Agnarsdóttir, Björgólfur Thorsteinsson,  Eva Þengilsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Hildur Helga Gísladóttir, Olga Hanna Möller og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

  • 1. Farið var yfir stöðuna í sumarlok í nokkrum baráttumálum Almannaheilla. Fram kom að innan fárra daga yrði gert opinbert álit nefndar félagsmálaráðherra um löggjöf er snertir félagasamtök og sjálfseignarstofnanir. Almannaheill áttu frumkvæði að skipun nefndarinnar og eiga fulltrúa í henni. Ekki hefur tekist að vekja mikla athygli á siðareglum Almannaheilla, sem samþykktar voru á aðalfundi í sumar. Í sumar hefur náðst árangur í að safna saman upplýsingum um greiðslur félagasamtaka til opinberra aðila og tekjur frá opinberum aðilum. Endanleg úttekt er þó ekki tilbúin.
  1. Helstu verkefni stjórnar Almannaheilla á næstu mánuðum verða eftirfarandi:
    1. Fylgt verður eftir tillögum nefndar félagsmálaráðherra við ráðherra og annað áhrifafólk. Hvatt verður til þess að samið verði frumvarp sem treystir lagalega stöðu félagasamtaka.
    2. Minnt verður áfram á kröfu almannaheillasamtaka um að fá sambærilegar skattareglur og þekkjast í nágrannalöndunum. Ætlunin er að benda á undanþágur sem aðrir lögaðilar njóta á Íslandi, s.s. undanþágur sem nýlega voru samþykktar á Alþingi til fyrirtækja vegna útgjalda þeirra til nýsköpunar. Þetta verður sett í samhengi við kall ríkisstjórnarinnar til almannaheillasamtaka um að taka að sér stærri hlutverk í samfélaginu.
    3. Vakin verður athygli á siðareglum Almannaheilla.
    4. Í ljósi þess að á næsta sumri verður lokið þriggja ára starfstímabili Almannaheilla, sem samið var um í stofnsamningi samtakanna frá 2008, verður unnið að mati á starfi samtakanna og efnt til viðræðna við forustufólk félaga innan Almannaheilla og utan samtakanna.
    5. Skoðuð verður hugmynd um að Almannaheill komi að stofnun sjálfboðaliða­miðstöðvar, samkvæmt tillögum sem ræddar hafa verið hjá Velferðarvaktinni. Árið 2011 er evrópskt ár sjálfboðaliða.
    6. Undirbúin verður ráðstefna um málefni félagasamtaka, væntanlega í samvinnu við nýja miðstöð þriðja geirans við Háskóla Íslands.
  • 3. Stjórnin mun funda a.m.k. mánaðarlega fram að jólum. Næstu fundir verða boðaðir:

30. september kl. 8.30.

21. október kl. 8.30.

  • 4. Fram kom að alþjóðleg athafnavika verður haldin í nóvember. Athugað verður með hvaða hætti Almannaheill gætu orðið aðilar að henni.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.15.

Skildu eftir svar