17) Fundur stjórnar Almannaheilla

17.   fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn fimmtudaginn 3. desember 2009. Kl, 8.30, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Mætt: Guðrún Agnarsdóttir, Björgólfur Thorsteinsson, Einar Haraldsson,  Eva Þengilsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Júlíus Aðalsteinsson,  og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.

Gestur fundarins var: Hrefna Sigurjónsdóttir, Heimili og skóla.

Þetta var gert:

1.       Fundarmenn töldu að mjög vel hefði tekist til með málstofu sem samtökin tóku stóðu að með Háskóla Íslands 27. nóvember. Margt athyglisvert kom þar fram í máli Steinunnar Hrafnsdóttur og Ómars Kristmundssonar um hvernig íslensk almannaheillasamtök hafa brugðist við kreppunni. Íslensk almannaheillasamtök, sem finna fyrir aukinni eftirspurn eftir þjónustu en hafa úr minna að moða en áður (vegna niðurskurðar hjá opinberum aðilum og fyrirtækjum, en ekki hjá einstaklingum), hafa gripið til þess að spara í sumum rekstrarþáttum,  veigra sér við nýjum verkefnum, leita í varasjóði sína og auka samvinnu sín á milli. Um 100 manns sóttu málstofuna , þ.á.m. heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, sem flutti ávarp í byrjun og  bauð almannaheillasamtökum til stefnumóts á næsta ári þegar heilbrigðisráðuneytið heldur upp á 40 ára afmæli sitt.

2.       Rætt um hvernig nýta megi það starf sem unnið hefur verið á vegum Almannaheilla til að laða til samtakanna ný aðildarfélög. Ákveðið að formaður skrifi bréf til nokkurra tuga almannaheillasamtaka, reki í því málflutning samtakanna og baráttumál og hvetji þau til samstöðu í þessum geira með þátttöku í Almannaheillum.

Fram kom að forystufólk í Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu hafi haft áhuga á því að gerast aðilar að Almannaheill. Innan þeirra samtaka eru hins vegar mjög ólíkir aðilar, m.a. einkaaðilar. Eva Þengilsdóttir mun flytja erindi á málþingi á þeirra vegum í næstu viku.

3.       Farið yfir vefsíðu Almannaheilla. Ákveðið að safna tengingum við samþykktir aðildarsamtakanna og setja inn í vefsíðuna. Þá mun verða gengið frá hönnun hnapps sem hægt er að setja inn á vefsíður aðildarsamtaka og tengir þær við vefsíðu Almannaheilla. Einnig hvatt til að aðildarsamtök sendi inn upplýsingar um viðburði á sínum vegum sem átt gætu erindi til allra.

4.       Ákveðið að varaformaður kalli saman nefnd um siðareglur. Þegar hafa þrír aðrir verið tilnefndir til setu í nefndinni. Leitað verður eftir 1-2 aðilum til viðbótar.

5.       Rætt um úttekt Blindrafélagsins á greiðslum félagsins á sköttum og fleiru til opinberra aðila, á móti opinberum styrkjum sem félagið nýtur. Leitað verður eftir því við Blindrafélagið að önnur aðildarfélög fái upplýsingar um aðferðafræðina við þessa útreikninga þannig að þau gætu gert sína eigin útreikninga. Fjármálastjóri KÍ hefur ráðgast við fulltrúa Blindrafélagsins og munu þeir kalla saman fund fjármálastjóra aðildarfélaga Almannaheilla fljótlega.

6.       Stjórnin mun á næstunni setja saman dagskrá fyrir starfsemi samtakanna á fyrri hluta komandi árs, s.s. stjórnarfundi, ráðstefnu (febrúar), hádegisfundi, heimsóknir frá og til áhrifafólks og aðalfund.

7.       Næsti stjórnarfundur verður boðaður með fyrirvara.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 9.55.

Skildu eftir svar