Umsögn Almannaheilla um boðað frumvarp um skattaumhverfi starfsemi til almannaheilla

Í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið birt áform fjármála- og efnahagsráðuneytis um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (Skattalegir hvatar vegna starfsemi til almannaheilla – þriðji geirinn). Áformin snúa að því að létta sköttum og gjöldum af íslenskum almannaheillasamtökum.

Almannaheill sendi inn umsögn um þessi áform þar sem þeim er fagnað enda eru þau til bóta fyrir þriðja geirann:

 Þær tillögur um skattabreytingar sem boðaðar eru í þessum “áformum um frumvarp till laga” eru byggðar á skýrslu ráðherraskipaðrar nefndar sem skilaði áliti fyrr á þessu ári. Tillögurnar marka viss tímamót og munu, ef þær verða að lögum, bæta verulega skattalega stöðu samtaka sem vinna að almannaheill. Mestum tíðindum sæta heimildir til handa einstaklingum til að lækka skattgreiðslur sínar með því að beina styrkjum til viðurkenndra almannaheillafélaga. Slík skattaleg hvatning til fólks um að styrkja félög til góðra verka er í sumum öðrum löndum talin verðmætust allra skattaívilnana sem þarlend félög búa við.

Þó sé ljóst að gera megi enn betur í því að færa stöðu almannaheillasamtaka í átt að því sem slík samtök búa við í samanburðarlöndum:

Þó ljóst sé að lögin sem hér eru boðuð muni breyta miklu um rekstur íslenskra almannaheillasamtaka, þá munu þau ekki tæma óskalista Almannaheilla og skyldra aðila varðandi þróun skattalegs umhverfis almannaheillastarfs; boðuð lög munu heldur ekki brúa að fullu það bil sem er á milli íslenskra almannaheillasamtaka og sambærilegra samtaka í samanburðarlöndunum í skattalegum efnum. Sérstaklega þarf í framhaldinu að skoða greiðslur almannaheillasamtaka á innskatti virðisaukaskatts, sem vega nú þyngra en aðrar skattgreiðslur í útgjöldum íslenskra almannaheillasamtaka samkvæmt könnun sem Almannaheill hafa gert—mörg sambærileg samtök í nágrannalöndunum eru undanþegin þessum skatti.