Félagasamtök á Íslandi standa frammi fyrir áskorunum í rekstri sínum og þurfa að standa saman í því að þrýsta á stjórnvöld svo þau bæti skattalegt umhverfi þeirra, svo sem með endurgreiðslu á virðisaukaskatti af aðföngum. Þetta segir Tómas Torfason, nýkjörinn formaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans.
Tómas var kjörinn formaður Almannaheilla á aðalfundi félagsins í vikunni. Hann er sjötti formaður Almannaheilla og tók við af Jónasi Guðmundssyni, sem er einn af stofnendum Almannaheilla og hefur verið formaður samtakanna síðastliðin fjögur ár og setið í stjórn þeirra mun lengur. Tómas er framkvæmdastjóri KFUM og KFUK og hefur verið lengi viðloðandi setu í stjórn frjálsra félagasamtaka.
Almannaheill hafa unnið að því að styrkja rekstrarumhverfi almannaheillasamtaka og hvöttu meðal annars til þess frá upphafi að sett yrðu lög um félög til almannaheilla. Þau eru orðin að veruleika ásamt því sem einstaklingum og lögaðilum er nú heimilt að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattstofni.
Á aðalfundinum mættu fulltrúar aðildarfélaga Almannaheilla. Gestir fundarins voru þau Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og Guðrún Agnarsdóttir, fyrsti formaður Almannaheilla og einn af stofnendum samtakanna. Þau Birgir og Guðrún héldu bæði ávörp um gildi félagasamtaka og stofnun Almannaheilla.
Endurgreiðsla á skatti er mikilvægt skref
Tómas sagði framtíðarsýn sína vera þá fyrir Almannaheill, að félögum verði fjölgað svo samtökin geti orðið öflugra í vinnu sinni fyrir frjáls félagasamtök, meðal annars talað af meiri krafti fyrir ályktun aðalfundarins, þar sem skorað var á Alþingi að endurskoða ákvæði í virðisaukaskattslögum og veita almannaheillasamtökum rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum (lög nr. 50/1988). Verði stefnt að því að almannaheillasamtök sem skráð eru á almannaheillaskrá verði undanþegin þessum greiðslum eins og almannaheillasamtök njóta í mörgum þeirra landa sem Íslendingar bera sig saman við.
Tómas rifjaði upp að á Almannaheillaskrá skattsins eru 458 lögaðilar sem njóta skattfríðinda og þeirra bættu kjara sem skatturinn býður upp á. Aðeins tíu prósent þeirra eru innan Almannaheilla. Með fjölgun félaga undir merkjum Almannaheilla mætti margfalda kraft samtakanna.
„Með samtöðunni getum við lagað margt, þar á meðal skattaumhverfið,“ sagði Tómas.
Ný stjórn kosin
Á aðalfundinum varð töluverð breyting á stjórn Almannaheilla. Auk formannsskipta kom inn ný stjórn auk einstaklinga sem áður sat í varastjórn. Í nýrri stjórn Almannaheilla sitja Ingveldur Jónsdóttir frá ÖBÍ og Heildur Helga Gísladóttir frá Kvenréttindasambandi Íslands, Jón Aðalsteinn Bergsveinsson frá UMFÍ, Anna Margrét Hrólfsdóttir frá Þroskahjálp og Guðrún Helga Harðardóttir frá Einstökum börnum. Tryggvi Axelsson frá ADHD samtökunum var kosinn til eins árs.
Í fyrri stjórn sátu Árni Einarsson, Guðlaug B. Guðjónsdóttir, Laufey Guðmundsdóttir, Jónas og Vilmundur Gíslason.
Að sama skapi breyttist varastjórn Almannaheilla sömuleiðis. Varamenn til ársins 2024 eru Ásdís Eva Hannesdóttir frá Norræna félaginu, Berglind Gunnarsdóttir Strandberg frá Foreldrahúsi, Ragnhildur Freysteinsdóttir frá Skógræktarfélagi Íslands, Sigríður Sólan frá Foreldrajafnrétti, Una Sveinsdóttir frá Kvenfélagasambandi Íslands, og Viðar Eggertsson frá Landssambandi eldri borgara.