Til hamingju með dag sjálfboðaliðans

Hildur Helga Gísladóttir, varaformaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans. (birt í Morgunblaðinu)

Sameinuðu þjóðirnar útnefndu Dag sjálfboðaliðans til að vekja athygli á öllum þeim einstaklingum sem sinna sjálfboðaliðastörfum. Almenn skilgreining á sjálfboðaliðastarfi er: Sjálfboðið vinnuframlag einstaklinga sem taka að sér að sinna valfrjálsum viðfangsefnum sem unnin eru innan ákveðins ramma með hagsmuni almennings að leiðarljósi, án þess að sjálfboðaliðinn fái greiðslu fyrir. Sjálfboðaliðar eru allskonar fólk á öllum aldri sem finnur hjá sér þörf til að bæta og breyta samfélaginu til betri vegar og þjónusta þau sem þurfa aðstoð.

Lagaumhverfi almannaheillasamtaka.

Í upphafi aldarinnar tók fræðafólk og fulltrúar nokkurra almannaheillasamtaka sig saman og undirbjuggu og stofnuðu Almannaheill, samtök þriðja geirans með það að markmiði að efla og styrkja starfs og lagaumhverfi frjálsra félagasamtaka og sjálfseiganastofnanna sem starfa í almanna þágu, að bæta skattalega stöðu þeirra og vera samstarfsvettvangur þeirra og málsvari gagnvart opinberum aðilum ásamt því að auka sýnileika samtakanna og efla ímynd þeirra. Fyrirmyndin var til staðar í nágrannalöndum okkar og löndum sem við berum okkur gjarna saman við. Segja má að umhverfi almannaheillasamtaka á Íslandi hafi tekið stakkaskiptum þann 1. nóvember sl. Þá gengu í gildu ný lög um félög til almannaheilla sem og nýjar og breyttar reglur um skattgreiðslur þessara samtaka ásamt skattalegum hvötum svo að bæði einstaklingar og fyrirtæki sjái hag sinn enn frekar í að styrkja almannaheillafélög fjárhagslega.
Með lagasetningunni hefur áralöng barátta Almannaheilla fyrir bættu lagaumhverfi almannaheillasamtaka náð fram að ganga og því ber sannarlega að fagna en félögin þurfa að gæta þess að skrá sig bæði á almannaheillaskrá og á almannaheillafélagaskrá til að löggjöfin gagnist þeim.

Við getum öll lagt okkar af mörkum í sjálfboðaliðastarfi

Eitt af því besta sem hvert og eitt okkar getur gert fyrir framtíðina, bæði fyrir okkur sjálf og börnin okkar, er að styðja við og taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Þannig byggjum við líka upp félagsauð og sköpum betra og öruggara nærsamfélag. Hér á landi sinnir fjöldi fólks umfangsmikilli starfssemi í sjálfboðinni vinnu alla daga og hafa almannaheillafélög og samtök komið á og haldið uppi fjölmörgum verkefnum í þágu samfélagsins svo lengi sem elsta fólk man og sögur fara af. Mörg þeirra verkefna eru nú orðin að sjálfsagðri þjónustu hins opinberra s.s. félagsleg þjónusta sveitarfélaga og leikskóli. Þökkum og hrósum sjálfboðaliðum þeirra störf, göngum til liðs við almannaheillafélög og leggjum þeim lið. Í sjálfboðaliðastarfi er alltaf pláss og þörf fyrir fleira fólk.