Svona skráir maður félag/stofnun á Almannaheillaskrá

Öll félög sem vilja nýta sér ávinning af lögum 32/2021 á þessu ári verða að skrá sig á Almannaheillaskrá fyrir áramót. Skilyrði fyrir frádrætti hjá gefendum er að móttakandi sé skráður á almannaheillaskrá á því tímamarki sem gjöf er afhent eða framlag veitt og gildir frádráttarheimildin um framlög sem berast frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu á almannaheillaskránna.

Skráningin er ætluð óhagnaðardrifnum félögum og stofnunum sem vilja að styrktaraðilar geti nýtt framlög sín til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni sínum. Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10-350 þúsund krónur á hverju ári og framlög koma til lækkunar á útsvars- og tekjustofni. Frádráttur fyrirtækja getur numið allt að 1,5% af rekstrartekjum auk þess sem fyrirtæki geta dregið frá 1,5% vegna aðgerða eða framlögum til aðgerða, sbr. skógrækt og landgræðsla, sem stuðla að kolefnajöfnun, samtals 3%.

Svona skráir maður sig á Almannaheillaskrá:

  • Farðu inn á rsk.is. Þrír valmöguleikar eru á innskráningu. Nóg er að skrá sig inn með veflykli viðkomandi félags/stofnunar. 
  • Eftir innskráningu kemur svona gluggi.
  • Finndu flipann Samskipti á síðunni og smelltu á hann.
  • Nú áttu að sjá annars vegar Samskipti og hins vegar val um Umsóknir.
  • Veldu Umsóknir. Smelltu á: Skráning á almannaheillaskrá.
  • Upp kemur eftirfarandi síða: Umsókn um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins.
  • Gangtu úr skugga um að nafnið á þínu félagi sé neðst á síðunni
  • Veldu flipann: Áfram 
  • Hér þarf umsækjandi að velja á milli nokkurra flokka. Hakaðu við þá starfsemi sem á við í þínu tilfelli.
  • Svara þarf hvað félagið þitt hefur fengið háa styrki og hvað það hefur veitt mikið af styrkjum.
  • Í næsta skrefi þarftu að skrifa netfang félags/stofnunar og haka við að allar upplýsingar séu réttar.
  • Sendu efnið frá þér.
  • Að síðustu á að koma upp gluggi þar sem segir að umsóknin sé móttekin. Tilkynning um samþykkta umsókn verður send á tölvupóstfang tengiliðs við afgreiðslu umsóknar.

Sjá nánar í lögum nr. 32-2021 um um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).