Stjórnarfundur 5. september 2013

Fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn fimmtudaginn 5. september, 2013, kl. 15.30, að Sigtúni 42,  Reykjavík.

Mætt: Ólafur Proppé, Anna M.Þ. Ólafsdóttir, Bryndís Torfadóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Guðmundur Magnússon, Jóna Fanney Friðriksdóttir, Ketill Magnússon, Ragnheiður Haraldsdóttir, Steinunn Hrafnsdóttirog Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.

Gestir fundarins: Unnur María Óskarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason sátu fundinn undir dagskrárlið 5.

Þetta var gert:

1.       Fundargerð

Fundargerð stjórnarfundar frá 27. júní s.l. var samþykkt án athugasemda.

2.       Staða vinnu við samningu lagafrumvarps

Formaður skýrði frá því að vinnu nefndar sem semur frumvarp til laga um félagasamök miði vel áfram. Enn sé henni þó ekki lokið. Ætla megi að Almannaheill fái málið til umsagnar á næstu vikum. Málið mun vera á málaskrá iðnaðar- og viðskiptaráðherra á haustþingi Alþingis.

3.       Átak til að fjölga aðildarfélögum Almannaheilla

Ketill skýrði frá niðurstöðu starfshóps stjórnar (auk hans störfuðu Ragnheiður og Steinunn í hópnum) um átak til að fjölga aðildarfélögum Almannaheilla. Lagði hópurinn fram tillögur í nokkrum þrepum. Skýra þurfi fyrir félagasamtökum þann hag sem þau geta haft af aðild að Almannaheillum. Haft verði samband við tiltekinn hóp félagasamtaka og fundað með forystufólki þeirra. Ákveðið var að stjórnarmenn sendi í tölvupósti hugmyndir um hvaða félög haft skuli samband við. Starfshópurinn mun starfa áfram.

4.       Vefkönnun meðal aðildarfélaga

Ketill kynnti aðra tillögu hans og Önnu um vefkönnun meðal núverandi aðildarfélaga Almannaheilla. Samþykkt var að gera þessa könnun, með sjö spurningum, um viðhorf til Almannaheilla og þekkingu á starfi samtakanna. Fá stjórnarmenn  vikutíma til að  senda þeim Katli og Önnu athugasemdir við spurningarnar.

5.       Kynning á nýjum aðildarfélögum

Unnur María Óskarsdóttir, formaður Kvenfélagasamtaka Íslands, og Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta, komu á fundinn til að kynna starfsemi samtaka sinna, en þau gerðust formlega aðilar að Almannaheillum á síðasta aðalfundi.

Fram kom að innan Kvenfélagasambandsins, landsambands kvenfélaga, eru um 170 kvenfélög. Starfa þau að ýmsum verkefnum í flestum byggðum landsins og sinna margvíslegum samfélagslegum þörfum. Hópar félaga mynda síðan héraðssamtök. Kvenfélagasambandið rekur í Reykjavík Leiðbeiningastöð heimilanna, sem veitir öllum sem eftir því leita upplýsingar um heimilisstörf og rekstur heimila.

Sagt var frá því að Samtök fjárfesta væru í raun áhugasamtök einstaklinga um eflingu almenns sparnaðar á Íslandi. Láta samtökin sig mest varða hag neytenda á fjármálamarkaði. Þá hafa þau reynt að hafa áhrif á skattlagningu vaxta og verðbóta. Hafa þau reglulega boðið erlendum fyrirlesurum til landsins til að fjalla um fjármálatengd efni.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.05.

Skildu eftir svar