Á fundi stjórnar Almannaheilla þann 1. október sl. var samþykkt ályktun þar sem þingmenn eru hvattir til að afgreiða væntanlegt frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um félög til almannaheilla. Ályktunin er svohljóðandi:
Ályktun Almannaheilla, samtaka þriðja geirans,
um drög að frumvarpi til laga um félagasamtök til almannaheilla
1. október 2015
Stjórn Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, hvetur þingmenn til að afgreiða frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla nú á haustþingi til hagsbóta fyrir samfélagið allt.
Allt frá haustinu 2012 hefur frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla verið í undirbúningi af hálfu atvinnu- og nýsköpunarráðherra. Nú snemmsumars var frumvarpið birt á vef ráðuneytisins og óskað umsagna.
Eitt af meginmarkmiðum Almannaheilla er að starfssemi frjálsra félagasamtaka, sem vinna að heill almennings án hagnaðarsjónarmiða, verði settur skýr lagarammi. Með því að setja skilyrði í lögum fyrir því að slík félög geti notið ýmissa réttinda og borið skyldur er leitast við að tryggja almenningi að félög og félagasamtök sem njóta stuðnings eða fyrirgreiðslu séu traustsins verð.
Félög í þriðja geiranum fá með lagasetningunni viðmið um góða stjórnarhætti sem gera þau betur í stakk búin til að sinna hlutverkum sínum. Nauðsynlegt er að lagasetningunni fylgi breytingar á skattalegu umhverfi sem koma til góða félögum sem uppfylla skilyrði laganna og ekki síður einstaklingum og fyrirtækjum sem leggja af mörkum til starfsemi þeirra.
Samþykkt á fundi stjórnar Almannaheilla þann 1. október 2015