Skýrsla stjórnar Samtaka um Almannaheill 2009

Skýrsla stjórnar Samtaka um Almannaheill Samtök um Almannaheill voru stofnuð 26. júní 2008 í húsakynnum Háskólans í Reykjavík eftir talsvert undirbúningsstarf. Tólf samtök og félög höfðu ákveðið að gerast stofnaðilar en þau eru Blindrafélagið, Bandalag íslenskra skáta, Geðhjálp, Gróður fyrir fólk í landi Ingólfs, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Landvernd, Neytendasamtökin, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands. Tvö önnur samtök undirrituðu stofnsamning með fyrirvara en gerðust strax stofnaðilar, en þau voru Aðstandendafélag aldraðra og Heimili og skóli. Stjórn og varastjórn var kjörin en í aðalstjórn eru Björgólfur Thorsteinsson, Björn B. Jónsson, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og var hún kjörin formaður, Jónas Guðmundsson, Jónas Þórir Þórisson og Kristinn Halldór Einarsson. Í varastjórn eru Björk Einisdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Júlíus Aðalsteinsson, Kristín Jónasdóttir, Stefán Halldórsson, Sveinn Magnússon og Vilmundur Gíslason. Í stofnsamningi er áhersla lögð á þrjú atriði á næstu þremur árum og er stjórn ætlað að vinna að þeim:

  • a) Skattalögum verði breytt á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattsstofni. Ennfremur verði slíkum félögum og samtökum heimilað að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar.
  • b) Sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur.
  • c) Ímynd félaga sem starfa í almannaþágu verði efld til muna meðal almennings.

Það er þá helst frá því að segja að stjórnin hélt tíu fundi á starfsárinu og eitt málþing. Hún skipaði með sér verkum þannig að Björn B. Jónsson er varaformaður, Kristinn Halldór Einarsson gjaldkeri og Jónas Guðmundsson ritari. Var strax ákveðið að sækja um kennitölu og skrá heiti samtakanna í fyrirtækjaskrá en þá kom í ljós að önnur samtök áttu mjög líkt nafn. Var auðvelt að semja við Gísla Helgason um að við fengjum að halda nafni okkar enda hin samtökin sem hann var ábyrgðaraðili fyrir ekki virk lengur. Einnig var ákveðið að framlengja frest til að gerast stofnaðili til áramóta. Sá háttur var strax tekinn upp að boða bæði aðal- og varastjórn á stjórnarfundi og kæmu þeir sem tök hefðu á. Nokkur dráttur varð á því að stofna bankareikning enda ákveðið að fara hægt af stað í fjármálunum og ekki að binda samtökin neinum fjárhagsskuldbindingum eða innheimta félagsgjöld strax. Það yrði þó gert fljótlega á árinu 2009. Þegar svo reikningur var stofnaður í Spron á þessu ári með góðum kjörum og stuðningi bankans hrundi bankinn skömmu síðar og við lentum í Kaupþingi þar sem við erum enn. Fljótlega var hugað að kynningu þessara nýstofnuðu samtaka og tókst hún vel í ýmsum fjölmiðlum og einnig var strax stefnt að því að setja upp heimasíðu sem er nú komin á laggirnar http://www.almannaheill.is/ með tímabundinni tengingu aðildarfélaga við Vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins. Ráðstefna eða málþing samtakanna var svo haldið fimmtudaginn 6. nóvember að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík undir yfirskriftinni: Hvernig bregðast almannaheillasamtök við breyttu samfélagi? Í fundarboði var einnig spurt: Hvernig bregðast íslensk almannaheillasamtök við afleiðingum fjármálakreppunnar? Á hvern hátt ættu þau að breyta forgangsröðun verkefna sinna? Hvernig förum við að því að styrkja þessi samtök til að takast á við krefjandi aðstæður? Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra flutti ávarp og fagnaði stofnun samtakanna og hafði góð orð um það að setja þyrfti lagaramma um störf almannaheillasamtaka. Síðan flutti Ann Armstrong prófessor við University of Toronto og gestakennari við Háskólann í Reykjavík fróðlegt og vekjandi erindi um Brýnustu verkefni og breytta starfsemi almannaheillasamtaka á erfiðum tímum. Auk þess voru Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Steinunn Hrafnsdóttir dósent við HÍ, Þórir Guðmundsson sviðsstjóri RKÍ, og Sigurður Ólafsson verkefnisstjóri hjá HR með stutt en áhugaverð erindi. Síðan voru umræður í hópum og ályktun samþykkt sem send var til fjölmiðla. Þótti málþingið takast mjög vel og mættu um 50 manns. Formaður fylgdi jákvæðri afstöðu félagsmálaráðherra eftir með bréfaskriftum og ósk um að sett yrði á laggirnar nefnd á vegum ráðuneytisins með aðild fulltrúa frá Samtökum um almannaheill. Sú nefnd hefur nú verið skipuð, að vísu með “…það hlutverk að fara yfir kosti þess og galla að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Nefndin mun skoða hvort ástæða sé til að setja heildarlöggjöf um slíka starfsemi…”. Er þarna komið eitthvað tregara hljóð í strokkinn en ávarp ráðherra gaf til kynna á málþinginu. Í nefndina eru skipuð: Ómar H. Kristmundsson formaður, Hjalti Zophoníasson, Ingibjörg Helga Helgadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, öll frá ráðuneytum og svo Eva Þengilsdóttir frá samtökum okkar en Jónas Guðmundsson er varamaður hennar. Nefndin hefur nú haldið sinn fyrsta fund og bindum við vonir við vinnu hennar og niðurstöður. Rætt hefur verið um aðstofna bakhóp hjá Samtökum um almannaheill til að styðja við fulltrúa okkar í nefndinni. Dr. Helmuth. K. Anheier prófessor, einn helsti fræðimaður á sviði frjálsra félagasamtaka hélt mjög áhugavert erindi í félagsvísindadeild HÍ 5. des. sl. um Framtíð frjálsra félagasamtaka á óvissutímum, The non-profit sector in turbulent times. Var fyrirlesturinn haldinn í tilefni af útgáfu vandaðrar bókar, Stjórnun og rekstur félagasamtaka en höfundar eru um 30 og ritstjórar dr. Ómar H. Kristmundsson dósent í stjórnmálafræði og dr. Steinunn Hrafnsdóttir dósent í félagsráðgjöf. Fleiri félög hafa bæst í hóp stofnaðila en þau eru Þroskahjálp, Umhyggja, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og CP félagið. Síðan hefur Hjartavernd einnig slegist í hópinn nýlega. Eru aðildarfélögin þá orðin 19 talsins. Talsvert hefur verið rætt um að ráða einhvern til starfa til að halda utan um málefni samtakanna og hafa frumkvæði að kynningu og öðrum verkefnum. Hefur skortur á fjármagni og ytra umhverfi krepputíma tafið framkvæmdir í þeim efnum en verið hugað að reglugerð Vinnumálastofnunar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Samkvæmt þeirri reglugerð gæti einstaklingur fengið laun hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og þannig gætu samtökin sparað sér útgjöld. Var ákveðið að doka við en að ný stjórn mundi huga að ráðningu starfsmanns í hlutastarf. Uppstillingarnefnd var skipuð til að annast skipun stjórnar og endurskoðenda og var Björn B. Jónsson frá UMFÍ skipaður formaður þar sem hann mun fara úr stjórn og Kristín Siggeirsdóttir frá Hjartavernd og Reynir Ingibjartsson frá Aðstandendafélagi aldraðra með honum. Það er mat mitt að vel hafi tekist til á þessu fyrsta starfsári samtakanna. Við höfum komið ýmsu í verk og styrkt tengslanet okkar innbyrðis. Fjármálakreppan setti mark sitt á starf okkar eins og annarra og fékk okkur til að hika við ákvarðanir sem annars hefðu verið teknar eða teknar fyrr. Það er þó enginn vafi í mínum huga að mikil þörf er á samstarfsvettvangi eins og samtök okkar bjóða upp á. Það styrkir okkur að eiga samleið og vinna saman að því sem eru sameiginleg hagsmunamál félaganna. Ég vil þakka stjórnarfólki í aðal- og varastjórn fyrir mjög gott samstarf á liðnu ári og óska Samtökum um almannaheill farsældar á næsta starfsári. Guðrún Agnarsdóttir

Skildu eftir svar