Skýrsla stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans 30.maí 2011

Skýrsla stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans
fyrir starfsárið 19. maí 2010 til 30. maí 2011

Almannaheill, samtök þriðja geirans, voru stofnuð 26. júní 2008 eftir talsvert undirbúningsstarf og hafa því starfað í tæp þrjú ár. Tólf félög og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheill ákváðu með stofnsamningi að stofna heildarsamtök til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum og starfa eftir samþykktum samtakanna í þrjú ár. Að þeim liðnum yrði tekin ákvörðun um framhald eða slit samtakanna. Er því komið að endurmati.
Fleiri félög bættust í hópinn síðar og eru aðildarfélög nú nítján, Aðstandendafélag aldraðra, Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, Bandalag íslenskra skáta, CP félagið, Geðhjálp, Gróður fyrir fólk í landi Ingólfs, Heimili og skóli landssamtök foreldra, Hjartavernd, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Landvernd, Neytendasamtökin, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Umhyggja, Ungmennafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.
Í stofnsamningi samtakanna var áhersla lögð á þrjú megin markmið á þessum þremur árum og hefur stjórn verið ætlað að vinna að þeim:
• a) Skattalögum verði breytt á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattsstofni. Ennfremur verði slíkum félögum og samtökum heimilað að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar.
• b) Sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur.
• c) Ímynd félaga sem starfa í almannaþágu verði efld til muna meðal almennings.
Aðalfundur var haldinn 19. maí 2010, í húsi Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík, og sátu hann sautján manns og áttu fimmtán aðildarfélög fulltrúa á fundinum. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum þar sem stjórn og formaður voru endurkosin flutti Ómar H. Kristmundsson erindi, en hann er prófessor við stjórnmálafræðideild félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Ómar var formaður nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði til að kanna kosti og galla þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Erindi Ómars fjallaði um starf nefndarinnar og hann sagði að tvö megintilefni hefðu verið fyrir skipun hennar, annars vegar tillaga Almannaheilla um að unnið yrði að slíkri athugun og hins vegar áhyggjur margra af fjárreiðum nokkurra félagasamtaka sem unnið hefðu að verkefnum fyrir opinbera aðila. Nefndin fékk Hrafn Bragason fyrrum hæstaréttardómara til að vinna álitsgerð um réttarumhverfi almennra félaga sem væri tímamótaverk. Taldi Ómar nefndina ljúka störfum fyrir sumarleyfi. Hann reifaði síðan rök með og á móti því að setja heildarlöggjöf og gat þess að Finnar hefðu einir Norðurlandaþjóða sett slík lög. Einnig kynnti hann fyrirhugaða Miðstöð þriðja geirans við félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Eva Þengilsdóttir, varaformaður Almannaheilla, kynnti síðan tillögur að nýjum siðareglum sem unnar voru af starfshópi á vegum samtakanna og voru þær samþykktar samhljóða. Í starfshópnum voru þær Anna Ólafsdóttir, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Snorradóttir og Þuríður Hjartardóttir og unnu þær mjög gott starf.
Á nýliðnu starfsári hefur stjórnin haldið áfram að einbeita sér að þeim markmiðum sem sett voru í stofnsamningi samtakanna. Haldnir voru ellefu stjórnarfundir á starfsárinu og er fundargerðir þeirra og reyndar allra stjórnarfunda að finna á heimasíðu Almannaheilla, og Almannaheill átti aðild að fjórum málþingum. Þeim hætti hefur verið haldið að boða bæði aðal- og varastjórn á stjórnarfundi og koma þeir sem geta. Í aðalstjórn störfuðu á sl. starfsári : Björgólfur Thorsteinsson, Einar Haraldsson, Eva Þengilsdóttir varaformaður, Guðrún Agnarsdóttir formaður, Jónas Guðmundsson ritari, Jónas Þórir Þórisson og Kristinn Halldór Einarsson gjaldkeri. Í varastjórn voru Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Júlíus Aðalsteinsson, Kristín Jónasdóttir, Stefán Halldórsson, Sveinn Magnússon og Vilmundur Gíslason.
Starfsáætlun þróaðist á fyrstu fundum stjórnar eftir aðalfund og var einkum lögð áhersla á eftirfarandi:
1. Fylgja eftir áliti nefndar félagsmálaráðherra um heildarlöggjöf fyrir frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir og hvetja til þess að samið verði frumvarp. Jafnframt að fylgja eftir kröfu Almannaheilla um breytingar á skattalegri meðferð til jafns við nágrannalönd.
2. Huga að ráðningu verkefnastjóra í hlutastarf.
3. Ljúka gerð skýrslu um stöðu aðildarfélaganna gagnvart ríkinu, annars vegar hvað varðar framlög þess til félaganna og hins vegar um framlög aðildarfélaganna til ríkisins, þegar allt er talið með. Kannað yrði sérstaklega hve mikinn virðisaukaskatt aðildarfélögin greiða.
4. Halda málþing um hagsmuni og stöðu almannaheillasamtaka, helst fleiri en eitt. Beina athygli sérstaklega að sjálfboðaliðastarfi þar sem árið 2011 verður evrópskt ár sjálfboðaliðans.
5. Koma fræðsluefni um félagasamtök inn á heimasíðu Almannaheilla.
6. Kynna siðareglur samtakanna.
7. Vinna að mati á starfi samtakanna í ljósi þess að senn eru þrjú starfsár liðin.
8. Taka þátt í umræðum og samstarfi við Velferðarvaktina um stofnun sjálfboðamiðstöðvar og fleiri málefni.
9. Bregðast við aðgerðum stjórnvalda sem snerta starf aðildarfélaganna með ályktunum.
Jónas Guðmundsson, ritari stjórnar, sótti fund hjá starfshópi á vegum Velferðarvaktar ríkisstjórnarinnar sem hefur undanfarið ár kannað leiðir til að miðla sjálfboðaliðastarfi. Kom til greina að sett yrði á laggirnar miðstöð sem félagasamtök og opinberir aðilar stæðu saman að og að Almannaheill gegndi veigamiklu hlutverki við stofnun hennar. Er reynsla af slíku starfi frá öðrum löndum. Eftir nokkrar umræður og samskipti milli Almannaheilla og fulltrúa í velferðarráðuneyti hefur þó ekkert orðið af þessu enn.
Fræðasetur eða miðstöð þriðja geirans var stofnað 26. nóvember sl. við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og er meginhlutverk þess að efla rannsóknir, þróunarverkefni og fræðslu á sviði þriðja geirans og almennra félaga sem starfa án hagnaðarvonar. Að setrinu standa Félagsráðgjafardeild og Stjórnmálafræðideild í samvinnu við Almannaheill og er það staðsett í Félagsvísindastofnum Háskóla Íslands. Almannaheill eiga þrjá fulltrúa í ráðgjafahópi Fræðasetursins, þau Evu Þengilsdóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur og Jónas Guðmundsson. Dr. Ómar H. Kristmundsson prófessor og Dr. Steinunn Hrafnsdóttir dósent veita setrinu forstöðu og verkefnisstjóri þess er Gestur Páll Reynisson. Formaður Almannaheilla opnaði heimasíðu Fræðasetursins á kynningarfundinum. Í tilefni af opnun fræðasetursins flutti Dr. Lars Svedberg erindi í Odda en hann er prófessor í félagsráðgjöf og rannsóknarstjóri Civil Society Studies við Ersta Sköndal háskólann í Stokkhólmi. Lars er virtur fræðimaður í málefnum frjálsra félagasamtaka, sjálfboðaliða og borgaralegs samfélags.
Lengi hefur staðið til að ráða verkefnisstjóra fyrir Almannaheill til að efla starfið almennt en ákveðið var að ráðast í það nú, einkum til að afla nýrra aðildarfélaga, en einnig til að kynna sérlega almannaheillastarf á evrópsku ári sjálfboðaliða. Þau Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Jónas Guðmundsson önnuðust viðtöl og gerð starfslýsingar og ráðningarsamnings. Var spurst fyrir hjá aðildarfélögum um hugsanlega umsækjendur og sóttu fimm um. Bergur Ólafsson var ráðinn. Bergur hefur menntun á sviði viðskipta- og hagfræði auk mastersnáms í almannatengslum. Hann hefur unnið við sölu- og markaðsmál hjá upplýsinga- og tæknifyrirtækjum. Hann var ráðinn í hálft starf til sex mánaða sem verktaki og hóf störf í desember en lýkur nú störfum í maílok og vil ég þakka honum kærlega fyrir samstarfið. Við ráðningu Bergs var gerð viðburðaáætlun um aðgerðir á vegum Almannaheilla þá sex mánuði sem hann mundi starfa.
Dagur sjálfboðaliðans var 5. desember sl. og skrifaði formaður Almannaheilla grein í dagblöðin til að vekja athygli á deginum og starfi þriðja geirans og Almannaheilla sérstaklega.
Til stóð að sýna talsverða virkni og leita samstarfs í tilefni af evrópsku ári sjálfboðaliða. Haldinn var ágætur fundur fulltrúa Almannaheilla, Fræðaseturs þriðja geirans, mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Rauða krossins, skáta og Evrópu unga fólksins. Fram kom áhugi þessara aðila á því að taka höndum saman um kynningu á mikilvægi sjálfboðastarfs. Þar kom jafnframt fram að þetta verkefni, Evrópuár sjálfboðaliða, er á vegum Evrópusambandsins og innifelur ekki önnur lönd á evrópska efnahagssvæðinu og því eru hvorki ráðuneyti né félagasamtök á Íslandi beinir þátttakendur í þvi. Minna hefur því orðið úr aðgerðum en í upphafi var vonast til.
Verkefnisstjóri hefur haft samband við fjölmörg félög og samtök til að kanna áhuga þeirra á því að ganga í Almannaheill til að styrkja sameiginleg hagsmunamál þriðja geirans en því miður lítið orðið ágengt og hefur ýmsu verið borið við eins og skorti á fjármagni eða að félög telja sig þegar hafa greiðan aðgang að ráðamönnum og vilja síður verða hluti af stærra hópi. Starfi Almannaheilla hefur þó almennt verið vel tekið og hafa fulltrúar félaga og samtaka utan Almannaheilla sótt ötullega málþing og viðburði á vegum samtakanna. Verkefnisstjóri hefur ennfremur unnið að því að bæta heimasíðu samtakanna http://www.almannaheill.is/.
Heildarsamtök sambærileg við Almannaheill eru starfandi t.d. bæði í Noregi og Svíþjóð og eru mjög fjölmenn. Innan þeirra starfa t.d. sum staðbundin alþjóðleg samtök en fulltrúar þeirra hér á landi hafa ekki talið sig geta eða mega gerast aðilar að samtökum eins og Almannaheillum. Ritari hefur verið í bréfaskiptum við ráðgjafa sem tók þátt í gerð samnings sænsku ríkisstjórnarinnar og samtaka sveitarfélaga í Svíþjóð við þriðja geirann í landinu og mætti kynna slíkt samstarf fyrir viðeigandi aðilum hér heima.
Fræðasetur þriðja geirans hélt málstofu í hádegi 21. janúar á Hótel Sögu í samvinnu við Almannaheill og Hjálparstarf kirkjunnar. Umfjöllunarefnið var Matarúthlutanir: Núverandi staða og framtíðarsýn. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir flutti erindið: Hver er staðan? Könnun á matarúthlutunum hjálparsamtaka og kynnti niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var meðal skjólstæðinga þessara hjálparsamtaka, reyndar allra nema Mæðrastyrksnefndar. Síðan voru stuttar framsögur undir yfirskriftinni Hvað er til ráða? en þær fjölluðu um mat hjálparstofnana á fyrirkomulagi matarúthlutana og framtíðarsýn. Ásgerður Flosadóttir frá Fjölskylduhjálp Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Mæðrastyrksnefnd, Heiðar Guðnason frá Samhjálp og Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar fluttu framsögu. Síðan voru pallborðsumræður með þátttöku framsögumanna og áheyrenda en málstofan var fjölsótt. Var það niðurstaða flestra að finna þyrfti betri ráð til að liðsinna þeim sem þurfa á aðstoð halda en að fólk þurfi að standa í biðröð eftir matarúthlutun. Var einkum rætt um úthlutun matarmiða. Formaður Almannaheilla var fundarstjóri. Ævar Kjartansson útvarpsmaður var viðstaddur og tók upp erindi og umræður og gerði síðar ágætan útvarpsþátt um málstofuna.
Almannaheill og Fræðasetur þriðja geirans héldu svo hádegismálstofu 14. febrúar í Lögbergi í samvinnu við velferðarráðuneytið um Mikilvægi heildarlöggjafar um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Málstofan var haldin í tilefni af útgáfu skýrslu starfshóps félags- og tryggingamálaráðherra um þetta efni. Stjórn Almannaheilla hefur fylgt vel eftir áliti nefndarinnar og áttu samtökin fulltrúa í nefndinni.
Í fjölsóttri málstofunni ræddi ráðherra velferðarmála, Guðbjartur Hannesson, við fundargesti um mikilvægt hlutverk þriðja geirans í samfélaginu og fjallaði um hugmyndir sem hafa þarf í huga við gerð heildarlöggjafar um starfsemi þriðja geirans. Auk ráðherra fluttu framsögu Ómar H. Kristmundsson prófessor sem var formaður starfshópsins og Eva Þengilsdóttir MPA varaformaður Almannaheilla sem var fulltrúi Almannaheilla í hópnum. Formaður Almannaheilla var fundarstjóri. Til málstofunnar mættu fulltrúar helstu félagasamtaka og sjálfseignarstofnana landsins sem margir hverjir vörpuðu fram spurningum eða hugleiðingum um málefni er tengjast starfsgrundvelli og skattheimtu ríkisins á frjáls félagasamtök. Einnig kom fram að mikilvægi þriðja geirans hefur sjaldan verið jafn mikið og einmitt nú, en á sama tíma er orðið erfiðara að afla fjár og starfsskilyrði hafa versnað. Í þessu ljósi er mikilvægt að skapa frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum betri rekstrarskilyrði með svipuðum hætti og nágrannalönd okkar hafa gert í áratugi. Skýrslu starfshópsins um heildarlöggjöfina má finna á heimasíðu velferðarráðuneytisins og hvetjum við alla þá sem málefnið varðar að kynna sér vel innihald hennar. Skýrsluna er að finna hér:http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/32657.
Velferðarráðherra lagði áherslu á að þverfagleg samvinna ráðuneyta yrði um gerð lagafrumvarps en það er hlutverk efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að annast frumvarpsgerðina. Formaður Almannaheilla ritaði því ráðherra þess ráðuneytis bréf þar sem skýrt var frá málstofunni og niðurstöðum vinnuhópsins og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar fagnað. Jafnframt var boðin liðveisla Almannaheilla við undirbúning frumvarpsins og hvatt til þess að vinnuferlið verði opið. Voru fyrirætlanir Almannaheilla kynntar um að halda málþing með þjóðfundarsniði með þátttöku fjölda félaga og samtaka til að safna saman hugmyndum og sjónarhornum sem flestra við gerð frumvarpsins. Beðið var um samstarf við ráðuneytið um slíkan fund og óskað eftir fundi til að ræða slíka samvinnu.Var síðan boðaður fundur í ráðuneytinu 8. mars sem formaður, varaformaður og ritari Almannaheilla sóttu en þar voru ráðherra, ráðuneytisstjóri, tveir sérfræðingar og ritari. Ráðherra lýsti áhuga á að unnið verði með hraði að lagasetningu. Voru umræður ágætar en engar beinar niðurstöður aðrar en þær að ráðherra tók vel undir það að styðja fund um málið með félögum og samtökum til að leita hugmynda og að áfram yrði unnið að málinu.
Skipaður var fimm manna vinnuhópur úr stjórn, Björgólfur Thorsteinsson, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Jónas Guðmundsson og Júlíus Aðalsteinsson auk verkefnisstjóra til að undirbúa Félagaþing Almannaheilla sem haldið var með þjóðfundarsniði 30. apríl sl. í húsi Krabbameinsfélags Íslands og mættu þar 60 manns. Eva Þengilsdóttir var fundarstjóri.
Tilgangur þingsins var að gera hagsmunaaðilum kleift að koma hugmyndum sínum og sjónarmiðum á framfæri fyrir gerð lagasetningarinnar.
Fulltrúar helstu félagasamtaka landsins mættu til þingsins ásamt fulltrúum ráðuneyta og ræddu þá þætti sem þeir telja mikilvæga í nýrri löggjöf um starfsemi í þriðja geiranum. Umræður voru mjög jákvæðar og frjóar og niðurstöður þingsins voru fjölmargar en þær má finna á vefsíðu Almannaheilla, http://www.almannaheill.is/. Ekki síður var mikilvægt fyrir fulltrúa hinna mörgu, ólíku samtaka að kynnast og vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum.
Skattamálin voru ofarlega í huga flestra. Athugasemdir og sjónarmið voru rædd er lúta að skattaumhverfi frjálsra félagasamtaka og töldu þátttakendur afar mikilvægt að bæta skattalega meðferð slíkra samtaka hér á landi og verði þá miðað við það sem gert er í nágrannalöndum okkar. Almannaheill mun fylgja málum eftir og leggja sérstaka áherslu á skattamálin. Umræður urðu t.d. einnig um meðferð fjármuna, þar sem mikilvægt væri að yfirsýn, upplýsingamiðlun og gegnsæi verði tryggt. Ennfremur var rætt um ábyrgð stjórna, formfestu og hvernig hægt sé að tryggja ábyrga og lýðræðislega stjórnun, virkt eftirlit með fjárreiðum, bókhaldi og endurskoðun félaga. Einnig um mikilvægi gæðaeftirlits þar sem félög veita þjónustu í samvinnu við hið opinbera. Eitt af markmiðum með setningu nýrra laga er að bæta rekstrarumhverfi frjálsra félagasamtaka og gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu. Sú umræða og þau sjónarmið sem fram komu á þinginu staðfesta að forsvarsmenn félagasamtaka og stofnana vilja leggja sitt af mörkum til þess.
Niðurstöður þingsins hafa þegar verið afhentar efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en ráðherra veitti Almannheillum fjárhagslegan stuðning til að halda Félagaþingið.
Sent var erindi til allra aðildarfélaga fyrir meira en ári síðan um að finna hjá sér upplýsingar um framlög ríkisins til þeirra og framlög og greiðslur félaganna eða samtakanna til ríkisins og beðið um svör fyrir allöngu. Ekki hafa öll aðildarfélögin sent inn upplýsingar en flest þó og liggja nú fyrir upplýsingar sem hægt er að senda efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Ættu þær niðurstöður að styðja kröfur okkar um bætta skattalega meðferð.
Nokkrar fréttir í dagblöðum og viðtöl í útvarpi hafa verið í tengslum við málþing og aðra viðburði Almannaheilla og Guðrún Agnarsdóttir, formaður Almannaheilla, var í viðtali við Ævar Kjartansson og Jón Orm Halldórsson um páskana í þættinum Landið sem rís. Ræddu þau um starf Almannaheilla og þriðja geirans almennt og hugsanleg aukin umsvif almannaheillastarfsemi á erfiðum tímum þegar margar stofnanir samfélagsins njóta þverrandi trausts.
Stjórn skipaði í uppstillingarnefnd til að velja einstaklinga í stjórn og varastjórn og endurskoðendur og einnig að safna uppástungum um nýjan formann. Í uppstillingarnefnd voru skipuð Guðrún Agnarsdóttir sem formaður og Björn B. Jónsson frá UMFÍ sem áður hefur setið í nefndinni og Brynhildur Arthúrsdóttir frá Öryrkjabandalaginu. Svo óheppilega vill til að ekki hefur verið athugað nógu vel að tryggja skörun við skipan í stjórn að undanförnu þannig að nú hafa allir setið þar þrjú ár nema einn og hverfa því allir á braut. Stjórn og varastjórn Almannaheilla hafa velt fyrir sér, nú að loknum þremur starfsárum, hvernig lög samtakanna hafa reynst. Við þá umfjöllun hafa komið fram ýmsar tillögur um það sem betur mætti fara og væru meira í takt við starfið. Við gerum því allnokkrar tillögur um lagabreytingar. Sumar breytingarnar eru einungis tilfærslur greinar en aðrar þannig að nýmæli koma inn.
Það er mat mitt að Almannaheill hafi unnið vel á þriðja starfsári samtakanna. Reyndar leyfi ég mér að segja að starf samtakanna öll þessi þrjú ár hafi verið einkar árangursríkt. Við höfum komið flestu í verk af því sem til stóð þó að eitthvað standi út af. Fjármálakreppan setti mark sitt á starf okkar eins og annarra en við höfum haldið okkar striki og fært umræðuna og vitneskjuna um almannaheillasamtök og starf þriðja geirans ofar í hugum fólks. Við höfum að eigin frumkvæði eða í samvinnu við aðra haldið fjölsótt málþing og fengið fulltrúa stjórnvalda til þátttöku í umræðunni og vísa ég þá í skýrslur stjórnar fyrir fyrri starfsárin tvö. Við höfum átt gott samstarf við fræðimenn og fagfólk auk áhugafólks í fjölmörgum félagasamtökum.Við höfum samið og sett okkur vandaðar og metnaðarfullar siðareglur. Síðast en ekki síst höfum við fengið jákvæð viðbrögð og vilyrði stjórnvalda fyrir því að heildarlöggjöf verði sett um frjáls félagasamtök og sjáfseignarstofnanir. Það virðist einnig ríkja skilningur á því að slík löggjöf væri lítls virði ef henni fylgdi ekki jafnframt breytt skattaleg meðferð líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þessi mál eru þó ekki í höfn og mjög mikilvægt fyrir nýja stjórn að fylgja þeim fast eftir. Varðandi mat á starfi Almannaheilla og hvort þau eigi áfram erindi er enginn vafi í mínum huga að mikil þörf er á samstarfsvettvangi eins og samtök okkar bjóða upp á og rétt er að hvetja fleiri samtök og félög til þess að ganga til liðs við okkur þannig að hópurinn verði öflugri. Það styrkir okkur að eiga samleið og vinna saman að því sem eru sameiginleg hagsmunamál félaganna. Það dugir ekki að láta litlu gulu hænuna eina um alla þá vinnu sem það kostar að gera ætt brauð úr því hveitikorni sem kann að finnast á vegferðinni. Við verðum að eiga sterkan og margradda kór félaga og samtaka á bak við hinn góða málstað almannaheillastarfa.
Það hefur verið mér bæði mjög ánægjulegt og lærdómsríkt að starfa með Almannaheillum og ég vil þakka samstarfsfólki í aðal- og varastjórn og fulltrúum aðildarfélaga og verkefnisstjóra fyrir góð kynni og mjög gott samstarf á liðnum árum og óska Almannaheillum farsældar og aukinna umsvifa í framtíðinni, íslensku samfélagi til hagsbóta.
30. maí 2011
Guðrún Agnarsdóttir

Skildu eftir svar