Rokkhátíð lýðræðisins

Á tveggja daga hátíð sem ber nafnið Lýsa og haldin verður á Akureyri í byrjun september verður þétt dagskrá frá morgni til kvölds þar sem almenningur, stjórnmálafólk og félagasamtök hittast og ræða um mikilvæg málefni. Fyrir þá sem vilja hafa áhrif á samfélagið er þetta sannkölluð hátíð fyrir innihaldsrík samtöl og tækifæri til að tjá og hlusta á ólík sjónarmið.

 

Þetta er fjórða árið í röð sem slík hátíð er haldin á Íslandi að norrænni fyrirmynd hátíða eins og Almendalen í Svíþjóð, Folkemødet í Danmörku og Arendal í Noregi. Tilgangurinn er að skapa vettvang fyrir alla Íslendinga þar sem samfélagsmál eru rædd, auðvelt er fyrir félagasamtök og stjórnmálafólk að skipuleggja viðburði og ókeypis er fyrir almenning að taka þátt.

 

Nú spyrja kannski sumir hvort ekki sé óþarfi að fólk ferðist á slíka hátíð á tímum þegar hægt er að halda fjarfundi og skrifa pistla á fjölmarga samfélagsmiðla. Þrátt fyrir að samfélagsmiðlarnir geri það auðveldara nú en nokkurntíma fyrir einstaklinga, félagasamtök og stjórnmálafólk að tjá sig um samfélagsmál þá skapa yfirlýsingar í 280 táknum ekki þá dýpt og traust sem samtal augliti til auglitis getur gert. Markmið Lýsu er að skapa tækifæri til innihaldsríkra samtala milli þín og mín og stjórnmálafólks og félagasamtaka í landinu. Á sama hátt og það er gaman að hlusta á tónlist í símanum og allt önnur upplifun að sjá uppáhalds hljómsveitina á tónleikum, þá er skemmtilegt að tjá sig um samfélagsmál á samfélagsmiðlum og allt annað að mæta á svæðið og eiga samtal við þann sem þú vilt hlusta á eða sannfæra.

 

Það er grasrótarstarf félagasamtaka sem gerir Lýsu áhugaverða veislu þar sem hugmyndir gerjast og blómstra. Mörg félög nota tækifærið og halda félagsfundi sína á eða í tengslum við Lýsu og skipuleggja viðburði og samræður með öðrum þátttakendum. Almannaheill, samtök þriðja geirans er aðstandandi hátíðarinnar og Menningarfélag Akureyrar er framkvæmdaraðili Lýsu . Við hvetjum allt áhugafólk um samfélagsmál að taka þátt. Lýsa er upplýsandi hátíð um samfélagsmál og öllum er boðið að mæta.

 

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júlí 2018