Ný stjórn kosin á aðalfundi Almannaheilla

Á aðalfundi Almannaheilla – samtaka þriðja geirans þann 1. júní  sl. kom fram að leggja á fram lagafrumvarp um frjáls félagasamtök á vettvangi almannaheilla á komandi haustþingi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði í ávarpi sínu, „það er mikilvægt að skýra réttindi og skyldur félagasamtaka, svo sem um opið bókhald og skattaumhverfi þeirra“. Í drögum að frumvarpinu sem kynnt hafa verið er meðal annars kveðið á um ívilnanir á borð við hækkun upphæða gjafa frá fyrirtækjum sem draga má frá skatti. Almannaheill hefur haft frumkvæði að þessari lagasmíð til hagsbóta fyrir almannaheillasamtök.

Nýr formaður Almannaheilla var kosinn á aðalfundinum, Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, kennnari við Háskólann í Reykjavík og fyrrum formaður Heimilis og skóla , landssamtaka foreldra. „Markmið nýrrar stjórnar er að fylgja frumvarpinu eftir, hvetja til fagmennsku og stuðla að aukinni meðvitund í samfélaginu um mikilvægi almannaheillasamtaka og sjálfboðastarfs“. Almannaheill leggja áherslu á að fjölga aðildarfélögum, sem nú eru 26, og kynna almenningi umfang og eðli alls þess framlags sem þriðji geirinn leggur til samfélagsins og lýðræðisþróunar. Einnig verður efnt til námskeiða og málþinga um fjölmörg sameiginleg hagsmunamál þriðja geirans.

Þann 12. Júní nk. mun Almannaheill standa fyrir opnu málþingi, á Fundi fólksins í Vatnsmýrinni, um starfsumhverfi almannaheillasamtaka í íslensku samfélagi. Aðalræðumaður málþingins verður Sir Stephen Bubb, framkvæmdastjóri ACEVO, samtaka stjórnenda sjálfboðasamtaka í Bretlandi, en hann mun m.a. fjalla um hvernig yfirvöld geta bætt starfsskilyrði frjálsra félagasamtaka.

Þeim sem vilja gerast aðilar að samtökunum er bent á að hafa samband við stjórnarfólk eða í gegnum www.almannaheill.is

 

Nýja stjórn skipa:
Ketill Berg Magnússon, formaður
Einar Bergmundur Arnbjörnsson
Haukur Ingibergsson
Jón Pálsson
Jónas Guðmundsson
Ragnheiður Haraldsdóttir
Steinunn Hrafnsdóttir
Varamenn:
Arnþór Jónsson
Bylgja Valtýsdóttir
Hildur Helga Gísladóttir
Erna Arngrímsdóttir
Þóra Þórarinsdóttir
Þórarinn Þórhallsson
Þröstur Emilsson