Fundargerð aðalfundar 3. júní 2013

Aðalfundur Almannaheilla, samtaka þriðja geirans 2013

Haldinn í húsnæði Krabbameinsfélagsins 3. júní 2013 kl 16:00

Ragna Árnadóttir formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna og sérstaklega félags- og húsnæðisráðherra, Eygló Harðardóttur.  Lagði til Guðmund Magnússon sem fundarstjóra og Jón Pálsson sem ritara.

Ávarp ráðherra Eyglóar Harðardóttur.  Eygló greindi frá áherslum nýrrar ríkisstjórnar á samstarf við frjáls félagasamtök þriðja geirans og sagði frá áhuga sínum og hugmyndum um leiðir til þess að efla hag slíkrar starfsemi, m.a. með hugmynd að lagabreytingu um meðferð fyrndra innstæðna í bönkum, sem eru að verðmæti um 1,5 milljarðar.  Í Bretlandi er í gildi löggjöf um að afhenda líknarfélögum slíka fjármuni í nafni verkefnis sem kallað er „Big society”.

Fyrirspurnir og svör.  Eygló voru þökkuð hlý orð, hvött til þess að beita sér fyrir samræmingu málefna þriðja geirans í eitt ráðuneyti í stað þriggja og að leiðrétta skerðingar opinberra fjárframlaga til þriðja geirans, að útvista verkefnum ríkis frekar til frjálsra félagasamtaka en til einkageirans, enda lægi augljós almannahagur í því.  Jafnframt var henni bent á nefnd, sem vinnur að breyttri löggjöf um almannaheillasamtök og hvött til þess að fylgja því máli eftir.

Skýrsla stjórnar. Ragna Árnadóttir flutti skýrslu stjórnar.  Umræða um skýrslu stjórnar.

Hlé.  Léttar veitingar í boði Krabbameinsfélags Íslands.

Dagskrárbreyting, Guðrún Agnarsdóttir kynnti tillögur uppstillingarnefndar.  Nefndina skipaði Björn Bjarnar Jónsson, Jónas Guðmundsson og Guðrún Agnarsdóttir formaður.  Jónas vék úr nefndinni áður en hún lauk störfum vegna vanhæfis.

Uppstillingarnefnd leggur til Ólaf Proppé prófessor emeritus og skáta sem nýjan formann.  Tillaga um stjórn: Guðmundur Magnússon, Anna Ólafsdóttir og Ragnheiður Haraldsdóttir verði áfram til tveggja ára, Hildur Helga Gísladóttir, Jón Pálsson og Jóhannes Gunnarsson voru kjörin til tveggja ára síðasta ár.  Tillaga um að Jónas Guðmundsson taki sæti Jóhannesar, báðir hafa samþykkt það.  Sjö varastjórnarmenn verði sömu og í fyrra nema að Jóna Fanney Friðriksdóttir komi í stað Sigrúnar Pálsdóttur frá Landvernd.

Skýrsla stjórnar samþykkt samhljóða.

Reikningar 2012 lagðir fram. Hildur Helga Gísladóttir gjaldkeri lagði fram áritaða ársreikninga.  Engar fyrirspurnir, samþykktir samhljóða.

Ákvörðun um aðildargjöld. Stjórn leggur til að aðildargjöld verði óbreytt frá síðasta ári.  Samþykkt samhljóða.

Inntaka nýrra félaga.  Anna Ólafsdóttir kynnti umsóknir nýrra félaga, fyrir liggja 3 umsóknir: Vinir Vatnajökuls, Kvenfélagasamband Íslands og Samtök fjárfesta. Nokkur félög drógu umsókn sína til baka, m.a. vegna of hárra gjalda eða náðu ekki að ganga frá umsókn og munu væntanlega koma síðar.  Stjórn telur félögin 3 öll uppfylla kröfur um aðild.  Umsókn félaganna þriggja samþykkt.

Kjör stjórnar.  Ólafur Proppé var réttkjörinn formaður.  Þrír stjórnarmenn sitja áfram til eins árs, Hildur Helga Gísladóttir, Jón Pálsson og Jónas Guðmundsson, sem kemur í stað Jóhannesar Gunnarssonar. Þrír stjórnarmenn kjörnir samhljóða til tveggja ára: Guðmundur Magnússon, Anna Ólafsdóttir og Ragnheiður Haraldsdóttir.  Varamenn kjörnir samhljóða til eins árs, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Bryndís Torfadóttir, Bylgja Valtýsdóttir, Gerður Aagot Árnadóttir, Ketill B. Magnússon, Jóna Fanney Friðriksdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir.

Kjör skoðunarmanna.  Aðalskoðunarmenn: Jónas Þórir Þórisson og Kristinn Halldór Einarsson kjörnir samhljóða.  Varaskoðunarmaður, Einar Haraldsson kjörinn samhljóða.

Önnur mál.

Ragna Árnadóttir þakkaði fyrir samstarfið og traustið sl. tvö ár og óskaði nýrri stjórn og formanni velfarnaðar á næsta kjörtímabili.  Mun áfram starfa sem formaður nefndarinnar um ný lög.

Ólafur Proppé nýkjörinn formaður þakkar traustið og ræddi mikilvægi þriðja geirans í samfélaginu um allan heim.  Telur að þriðji geirinn hafi verið ein meginstoðin í því að gera Ísland að einni ríkustu þjóð heims frá því að vera þróunarland fyrir hundrað árum síðan.

Anna þakkaði Rögnu fyrir gott samstarf.  Ketill þakkaði Rögnu gott samstarf og óskaði eftir upplýsingum frá henni um stöðu löggjafarinnar.  Ragna gerði grein fyrir því.  Meðal annars hefur verið leitað að fyrirmynd í sambærilegri finnskri löggjöf, sem hefur verið til skoðunar.  Unnið að ramma að því hvaða kvaðir félög skulu uppfylla til þess að geta talist almannaheillasamtök og átt rétt á þeim hlunnindum sem því kunna að fylgja, s.s. skattaívilnunum.

Guðmundur þakkaði fyrir fundinn og Ragna þakkaði fundarstjóra og ritara fyrir störf á fundinum og sleit honum klukkan 17:43.

Skildu eftir svar