Þriðjudaginn 13. Maí síðastliðinn stóðu Almannaheill og fræðasetur þriðja geirans fyrir vel heppnaðri málstofu í Odda, Háskóla Íslands. Þar fjallaði Dr. Erla Þrándardóttir um lagalega stöðu og regluverk frjálsra félagasamtaka í Bretlandi. Erla er gestafræðimaður við City University í London og miðlaði okkur af rannsóknum sínum, þar sem hún kannaði innra lögmæti þriggja stórra félagasamtaka í Bretlandi, þ.e. Greenpeace, Cafod og Amnesty og valdajafnvægi þeirra við alþjóðlegar höfuðskrifstofur samtaka.
Fram kom í málstofunni að staða frjálsra félagasamtaka er sterk í Bretlandi, þau eiga sér djúpar rætur og þar er skýrt regluverk þar sem Eftirlitsnefnd frjálsra félagasamtaka fer yfir umsóknir félaga þar sem þau þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að falla undir ramma frjálsra félagasamtaka í almannaþágu (charity NGOs) með þeim réttindum og samfélagsskyldum sem því fylgja. Meðal annars njóta slík félög skattaafsláttar en einnig kom fram að mörg félög skrá sig jafnframt sem fyrirtæki til að hafa lagavernd.
Þörf er á skýrri lagasetningu fyrir frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir í almannaþágu á Íslandi og Almannaheill vinnur nú að lokadrögum frumvarps til laga til að styrkja stöðu þeirra, sem áætlað er að fari fyrir þing á haustmánuðum 2014.