Fagmennska til almannaheilla

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 14. apríl 2018

 

Almannaheillafélög í landinu með tugþúsunda félagsmanna kalla eftir lagalegri umgjörð um þeirra félagaform. Nauðsynlegt er að samþykkja slík lög sem fyrst.

 

Þegar við, almenningur, fyrirtæki og yfirvöld, styðjum félagasamtök til góðra verka viljum við geta treyst þeim. Við viljum að fólkið eða málefnið sem félagasamtökin starfa fyrir njóti faglegrar hjálpar, að félagasamtökin taki vandaðar ákvarðanir, fari vel með fjármagn og komi í veg fyrir hagsmunaárekstra. Við viljum ekki að fjármálaóreiða eða eiginhagsmunapot i félagasamtökunum skaði málstaðinn sem við styðjum. Því miður er alltaf hætta á að það gerist í félagasamtökum eins og annars staðar þar sem peningar og hagsmunir eru í húfi.

 

Í frumvarpi til laga um almannaheillafélög sem ekki náðist að ljúka fyrir þingslit haustið 2016 og nú liggur aftur á borði ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra eru skýrar tillögur um lágmarkskröfur til slíkra félaga um lýðræðisleg vinnubrögð og faglega meðferð fjár.

 

Almannaheill eru landssamtök félagasamtaka og sjálfseignastofnana sem vinna að málefnum til almannaheilla. Aðildarfélögin eru mörg af stærstu almannaheillasamtökum landsins, með tugþúsunda félaga. Þessi félög hafa allt frá árinu 2008 kallað eftir því að starfsumhverfi almannaheillasamtaka verði styrkt og þau fái ívilnanir í samræmi við þann ávinning sem þau skapa samfélaginu og yfirvöldum.

Almannaheillafélögin styðja umrætt lagafrumvarp og þykir eðlilegt að gera þær lágmarkskröfur um fagmennsku og lýðræðisleg vinnubrögð sem þar er kveðið á um. Það skaðar nefnilega öll almannaheillafélög þegar óvönduð vinnubrögð eða óreiða koma upp í einum samtökum. Fagleg félög hafa ekkert að fela og vilja geta sýnt fram á það svart á hvítu.

 

Ráðherra taldi í svari sínu við fyrirspurn á Alþingi um frumvarpið þann 9. apríl að frumvarpið gæti verið “íþyngjandi” og “hamlandi” fyrir almannaheillafélög og því gæti hún ekki lagt það fram. En um hvað snýst þetta frumvarp? Í stuttu máli er gert ráð fyrir að félög sem starfa í almannaþágu og þiggja styrki og almannafé geti skráð sig hjá fyrirtækjaskrá sem félög til almannaheilla. Mjög mikilvægt atriði í frumvarpinu er að slík skráning yrði valkvæð, þannig að lítil félög sem ekki höndla með fjármuni eða eru undirfélög í regnhlífasamtökum þurfa ekki að skrá sig og þá eiga þessi lög ekki við um þau. Í frumvarpinu eru tvö efnisleg atriði. Í fyrsta lagi eru sett fram nokkuð ítarleg viðmið um lýðræðislega stjórnarhætti, t.d. um að félag þurfi að hafa samþykktir og stjórn en líka um hvernig tryggja megi lýðræðislegar kosningar og ákvarðanir stjórnar. Í öðru lagi er í frumvarpinu gerð krafa um að ef valið er að skrá sig sem félag til almannaheilla þá þurfi félagið að halda bókhald og skila inn ársreikningi. Þetta eru nú allar hömlurnar. Hindranirnar eru sáralitlar og engar fyrir lítil félög því þau ráða sjálf hvort þau teljist formleg félög til almannaheilla.

 

Óþarfi er að óttast að skilyrði, sem almannaheillasamtökin sjálf telja almenna skynsemi og muni auka fagmennsku og trúverðugleika greinarinnar gagnvart almenningi og yfirvöldum sem þar að auki eru valkvæð, muni koma til með að hindra og íþyngja starf þessara sömu félaga.

 

Ketill Berg Magnússon
Formaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans