Sunnudagurinn 5. desember er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðastarf er mikilvægur þáttur í starfsemi flestra almannaheillafélaga hvort sem þau starfa á landsvísu eða á alþjóðlegum vettvangi. Hjálparstarf kirkjunnar hefur um árabil aðstoðað fólk sem býr við kröpp kjör á Íslandi og fyrir síðustu jól nutu rúmlega 1700 fjölskyldur aðstoðar um allt land. Sjálfboðaliðastarf teygir sig einnig út fyrir landsteinanna samanber saga Svölu Davíðsdóttur sem starfaði sem sjálfboðaliði fyrir SOS barnaþorp í Katmandú í Nepal.
Sjálfboðaliðastarf er lykilatriði í starfsemi björgunarsveita, íþróttafélaga, kvenfélaga og mannræktarsamtaka ýmiskonar sem dæmi má nefna jafningjastarf á vegum Krafts og Krabbameinsfélagsins. Ótalið er ýmiskonar sjálfboðaliðastarf sem fer fram óháð félögum og felst í náungakærleik og því að rétta út hjálparhönd.