Áhrif nýrra laga- og skattareglna á starf almannaheillasamtaka

Stórbreytingar á starfsumhverfi almannaheillasamtaka ganga í gildi í haust, með nýjum lögum um félög til almannaheilla og nýjum skattareglum fyrir þriðja geirann. Nú kemur inn í skattalögin aukin hvatning til fyrirtækja og einstaklinga til þess að styðja við almannaheillastarfsemi–ef að líkum lætur mun þetta stuðla að bættri fjármögnun margra samtaka.

Ómar H. Kristmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, mun fara stuttlega yfir aðdraganda og inntak þessara breytinga á Fundi fólksins – Lýðræðishátíð, sem fram fer laugardaginn 4. september.

Ómar tekur ennfremur þátt í pallborðsumræðum ásamt Rakel Lind Hauksdóttur, fjármálsstjóra SOS barnaþorpa, Þóru Jónsdóttur, lögfræðingi Barnaheilla, og fleirum.

Guðrún Agnarsdóttir, fyrrum alþingismaður og fyrsti formaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, stýrir fundi og umræðum.

Fundurinn er kl. 11 í Grósku hugmyndahúsi í Fenjamýri (í nágrenni Norræna hússins).

Streymt verður frá fundinum.