Aðalfundur Almannaheilla, samtaka þriðja geirans 1. júní, 2015

Aðalfundur Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn mánudaginn 1. júní, 2015, kl. 15.00, á skrifstofu Krabbameinsfélags Íslands, Skógarhlíð, Reykjavík.

 

Dagskrá:

1. Aðalfundur settur. Ólafur Proppé, formaður setti fundinn, bauð Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra velkomna ásamt fundarmönnum

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Ólafur lagði til Helgi Gunnarsson frá UMFÍ sem fundarstjóra og Jón Pálsson úr stjórn Almannaheilla sem ritara. Samþykkt.

Fundarstjóri tók til starfa, kynnti dagskrá og bauð ráðherra velkominn og veitti henni orðið.

3. Ávörp gesta: Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra flutti ávarp. Hún greindi frá mikilvægi Almannaheillasamtaka fyrir þjóðfélagið og kynnti undirbúning lagafrumvarps um almannaheillasamtök, sem stefnt er að að leggja fyrir komandi haustþing, enda náist sátt um mikilvæga þætti, s.s. um skattareglur. Frumvarpið var kynnt á heimasíðu ráðuneytisins fyrir nokkrum vikum og rann athugasemdarfrestur út í dag.

Fundarstjóri þakkaði ráðherra fyrir ávarp sitt og gekk til þess að kanna lögmæti fundarins. Fundurinn var úrskurðaður lögmætur með öllum greiddum atkvæðum eftir að fundarstjóri leitaði afbrigða, þar sem fyrirvari til boðunar var ekki alveg nægur, 4 vikur. Kjörbréf bárust frá 16 aðildarfélögum, Blindrafélaginu, Bandalagi íslenskra skáta, Heimili og skóla – landssamtökum foreldra, Hjartavernd, Hjálparstarfi kirkjunnar, Krabbameinsfélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtökum Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Neytendasamtökunum,

Samtökum sparifjáreigenda, Ungmennafélagi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og Einstökum börnum. 20 fulltrúar voru mættir og 32 atkvæði skv. kjörbréfunum.

4. Staðfesting á nýjum aðildarfélögum. Ólafur Proppé kynnti tvenn samtök, sem stjórn leggur til að bætist við þau 24 samtök, sem fyrir eru í félaginu, ADHD samtökin og Einstök börn. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

5. Skýrsla stjórnar um nýliðið starfsár. Ólafur Proppé kynnti skýrslu stjórnar, sem var dreift á fundinum.

6. Skýrsla um fjárhag samtakanna og fjárhagsáætlun. Jónas Guðmundsson gjaldkeri Almannaheilla kynnti hana. Velta 1.325 þúsund, afkoma 632.144,- eigið fé 2.477.189,-

7. Umræður um skýrslu og afgreiðsla ársreiknings. Engin kvaddi sér hljóðs og var skýrsla stjórnar og ársreikningur samþykktur samhljóða. Þá kynnti gjaldkeri fjárhagsáætlun 2015, samþykkt samhljóða.

8. Kosning stjórnar og skoðunarmanna. Þriggja manna uppstillingarnefnd, Guðrúnar Agnarsdóttur, Júlíusar Magnússonar og Ólafs Proppé hefur skilað tillögum um stjórn. Tillaga um formann, Ketill B Magnússon, sjálfkjörinn til eins árs með lófataki. Jónas Guðmundsson og Jón Pálsson sitja áfram, Jóna Fanney gefur ekki kost á sér áfram. Haukur Ingibergsson, Ragnheiður Haraldsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir kjörin til tveggja ára, Einar Bergmundur Arnbjörnsson til eins árs í sæti Jónu Fanneyjar. Öll sjálfkjörin með lófataki.

Varastjórn: Arnþór Jónsson, Þóra Þórarinsdóttir, Bylgja Valtýsdóttir, Erna Arngrímsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Þórarinn Þórhallsson og Þröstur Emilsson, öll kosin til eins árs. Skoðunarmenn reikninga Einar Haraldsson og Jónas Þórir Þórisson. Öll sjálfkjörin með lófataki.

9. Ákvörðun um gjaldskyldu aðildarfélaga. Ólafur Proppé kynnir tillögu stjórnar um hækkun gjalda í tveimur efstu flokkum um 20%. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

10. Lagabreytingar. Engar tillögur til breytinga komu fram.

11. Önnur mál.

Nýkjörinn formaður, Ketill Berg Magnússon flutti fundinum ávarp sitt og ræddi m.a. um mikilvægi fyrir lífsgleði einstaklinga á að taka þátt í félagastörfum til almannaheilla og um mikilvægi Almannaheilla, sem samtaka þessa afls í þjóðfélaginu. Einnig um mikilvægi lagafrumvarpsins, sem er í vinnslu, sem umgjarðar utan um samtök í almannaþágu, sem eigi eftir að auka veg slíkra félaga og virðingu í samfélaginu. Framundan eru mörg og mikilvæg verkefni – fylgja eftir frumvarpinu, efla og byggja upp þriðja geirann.

Ketill þakkaði Ólafi fyrir hans góða starf fyrir félagið sl. tvö ár og lýsti því yfir að félagið hafi notið ríkulega af hans störfum og færði honum gjöf að skilnaði.

Ragnheiður Haraldsdóttir ræddi um atriði í ræðu ráðherra um það hvort stjórnmálaflokkar falli undir skilgreiningu um almannaheillasamtök, eins og henni virtist ráðherra nefna.

 

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl 16:21.

Jón Pálsson, fundarritari