- 7. fundur stjórnar Samtakanna almannaheilla, haldinn miðvikudaginn 19. febrúar 2009, kl. 8.30, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.
Mætt: Björgólfur Thorsteinsson, Björn B. Jónsson, Guðrún Agnarsdóttir, Vilmundur Gíslason og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð. Þröstur Árni Gunnarsson sat fundinn undir lið 5.
Þetta var gert:
- 1. Rætt um skipun í nefnd um endurskoðun löggjafar er snertir félagasamtök. Með bréfi formanns voru Eva Þengilsdótir og Jónas Guðmundsson tilnefnd sem fulltrúar Almannaheilla í þessa nefnd félagsmálaráðherra. Af hálfu Almannaheilla verður lögð áhersla á að löggjöfin skilgreini betur þann ramma sem félagasamtök starfa innan, hverjir megi taka á sig ábyrgðir fyrir félagasamtök o.fl.
- 2. Formaður sagði frá bréfum sem henni höfðu borist varðandi skattaívilnanir í Bandaríkjunum vegna gjafa þarlendra aðila til íslenskra almannaheillasamtaka. Í bréfunum var bent á ákveðnar greinar í bandarískum skattalögum sem máli skipta í þessu sambandi. Verður nánar skoðað á milli funda.
- 3. Kristinn hafði sent í tölvupósti lista yfir aðildarfélög sem hann gerði varðandi innheimtu aðildargjalda. Eru aðildarfélög þar flokkuð eftir því hvort þau lenda í hærri eða lægri gjaldflokki. Bað hann stjórnarmenn að yfirfara listann til þess að tryggja að réttir reikningar verði sendir út.
- 4. Rætt um hvort rétt væri að leggja til að nafni samtakanna verði breytt á næsta aðalfundi, t.d. í Almannaheillasamtökin.
- 5. Rætt um erindi sem barst frá Hjartavernd um að fram fari skoðun á því hver fjárhagsleg áhrif bankahrunið hafði á íslensk almannaheillasamtök. Lagt var til í erindinu að vinnuhópur verði stofnaður til að skoða þessi mál. Samþykkt var að kalla saman hóp fjármálastjóra eða gjaldkera aðildarfélaga til að skoða málið og gera tillögur um hvernig hægt verði að koma til móts við almannaheillasamtök vegna þessa áfalls.
- 6. Fram var haldið umræðu um minningarkort.is frá síðasta fundi. Samþykkt að mæla með því við aðildarfélögin að þau geri sérstaka samninga við þennan söfnunarvef ef þau vilja safna gjöfum í gegnum hann.
- 7. Almannaheill hafa fengið tímabundinn aðgang að vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins. Munu aðgangsorð verða send til aðildarfélaganna.
Fundi slitið kl. 10.00. Næsti fundur verður haldinn 19. mars n.k..