5) Fundur stjórnar Almannaheilla 26.11.2008

  • 5. fundur stjórnar Samtakanna almannaheilla, haldinn mánudaginn 26. nóvember 2008, kl. 8.30, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Mætt: Björgólfur Thorsteinsson, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Kristinn Halldór Einarsson,  og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

  • 1. Katrín Jónsdóttir, sem stundaði nám við Háskóla Íslands, kom sem gestur á fundinn og sagði frá MA-ritgerð um aðferðir félagasamtaka til að hafa áhrif á ríkisstjórn og þing. Hún ræddi um margræði, samráð og málafærslu (fyrir „advocacy”).
  • 2. Farið yfir framkvæmd og árangur nýlegs málsþings. Var sérstaklega rætt um orð félagsmálaráðherra um réttmætar ábendingar Almannaheilla varðandi lagasetningu um umgjörð fyrir starf félagasamtaka. Var ákveðið að rita félagsmálaráðherra bréf af þessu tilefni og óska eftir fundi með henni til að ræða frekari vinnu og samstarf að þessum málum.
  • 3. Vakin var athygli á því að í nýrri heilsustefnu heilbrigðisráðherra er fjallað um þátt félagasamtaka, og sjálfseignastofnana í lýðheilsu- og heilbrigðismálum landsmanna. Ennfremur segir: „Á tímum sem þessum er framlag félagasamtaka enn mikilvægara en áður og brýnt að hlúa að þeim. Aðgerðir til eflingar þriðja geirans felast í umbótum á starfsumhverfi hans, aukinni fræðslu og þekkingarsköpun”.
  • 4. Ákveðið að innheimta ekki félagsgjald fyrir árið 2008. Hins vegar verður fljótlega innheimt gjald fyrir 2009, í samræmi við ákvörðun stofnfundar samtakanna í sumar. Nauðsynlegt sé að afla fjár til að gera samtökunum betur kleift að fylgja eftir stefnumálum sínum og standa undir útgjöldum sem þegar hafa fallið á þau.
  • 5. Kynnt var vefsíðan bjartyni.is, sem ætlunin er að opna innan skamms, og mun birta „sögur, hugmyndir og ábendingar um góðan árangur í atvinnulífinu, spennandi verkefni og vænlegar leiðir á komandi tímum”. Björgólfur mun taka að sér vera tengill við bjartsyni.is.
  • 6. Eva sýndi drög að útliti nýrrar vefsíðu fyrir Almannaheill. Skoða þarf nánar efnisuppröðun á vefsíðunni. Unnið er eftir tilboði frá Outcome, en efnisatriði þess verða nánar skoðuð á næsta fundi.
  • 7. Ákveðið var að halda fund fyrir jól, bjóða til hans öllum aðildarsamtökum og einnig nýjum samtökum sem hafa verið að hugleiða aðild að Almannaheillum.
  • 8. Rætt var um fyrirlestur sem Helmut K. Anheier, prófessor við Heidelberg-háskóla í Þýskalandi og heimsþekktur fræðimaður um frjálsa félagastarfsemi, mum flytja 5. desember n.k. í Odda, Háskóla Íslands, í tilefni af útgáfu bókar um stjórnun og rekstur félagasamtaka. Samtökin almannaheill eiga aðild að þessum fyrirlestri.
  • 9. Rætt var um breytt fjölmiðlaumhverfi og erfiðleika félagasamtaka við að koma efni á framfæri í fjölmiðlum. Stefnt er að því að fá fulltrúa fjölmiðla á fund stjórnar til að ræða þessa stöðu og hvernig hægt er að bregðast við henni.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 10.10.

Skildu eftir svar