Velferð með hjálp frjálsra félagasamtaka

Mörg félög sem starfa á vettvangi Almannaheilla leggja áherslu á að veita þeim sem búa við fátækt stuðning og tryggja velferð þeirra með margvíslegum hætti.

Því var það afar áhugavert fyrir stjórn Almannaheilla að fá í dag (5. mars 2015) á sinn fund Siv Friðleifsdóttur, sem leiðir starf Velferðarvaktarinnar fyrir félagsmálaráðherra. Nú eiga 35 aðilar fulltrúa í Velferðarvaktinni, og endurspeglast þessi breiða aðkoma í nýlegri skýrslu vaktarinnar.

Siv fór yfir skýrsluna og sköpuðust ákafar umræður i kjölfarið. Ein tillaga nefndarinnar tekur sérstaklega til  samvinnu við frjáls félagasamtök og um verkefnasjóð til að styrkja það samstarf. Gert er ráð fyrir að frjálsum félagasamtökum verði falið aukið hlutverk við að þjónusta þá hópa sem höllustum fæti standa.

Stjórn Almannaheilla mun fylgjast grannt með framvindunni því í þessari og fleiri tillögum skýrslunnar eru fólgin tækifæri til að leggja af mörkum til mikilvægra samfélagsverkefna með skilvirkum hætti.

Nýjustu skýrslu Velferðavaktarinnar má nálgast á vef velferðaráðuneytisins hér.