Vel heppnuðum aðalfundi lokið

Almannaheill, samtök þriðja geirans héldu aðalfund 19. maí sl. í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8. Á fundinum voru samþykktar samhljóða siðareglur fyrir samtökin en unnið hefur verið að gerð þeirra í vetur. Var því sérstaklega fagnað að samtökin hefðu nú sett sér slíkar reglur. Einstök aðildarfélög geta á grundvelli þeirra sett sér sértækari siðareglur. Stjórn, varastjórn og formaður voru endurkjörin.

Ómar H. Kristmundsson, prófessor við félagsvísindasvið Háskóla Íslands, flutti síðan erindi um starf nefndar félagsmála¬ráðherra sem kannað hefur kosti og galla þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Ómar er formaður nefndarinnar.  Hann sagði að tvö megintilefni hefðu verið fyrir skipan nefndarinnar, annars vegar tillaga Almannaheilla um að unnið yrði að slíkri athugun og hins vegar áhyggjur margra af fjárreiðum nokkurra félagasamtaka sem unnið hefðu að verkefnum fyrir opinbera aðila. Nefndin fékk Hrafn Bragason, fyrrum hæstaréttardómara, til að vinna álitsgerð um réttarumhverfi almennra félaga, sem Ómar taldi réttnefnt tímamótaverk um þessi mál. Nefndin stefndi að því að ljúka störfum með tillögum til ráðherra fyrir sumarleyfi.

Ómar sagði athyglisvert að samkvæmt skoðanakönnunum nytu félagasamtök 70-80% trausts í samfélaginu, á meðan margar aðrar stofnanir samfélagsins, s.s. Alþingi, njóta lítils trausts. Hins vegar byggju félagasamtök við mjög óvisst rekstrarlegt umhverfi. Tilviljanakennt væri hvernig almenn félög í landinu væru skráð, svo jaðraði við hreina óreiðu. Ómar kynnti að auki fyrirhugaða Miðstöð þriðja geirans, sem stefnt er að því að stofna við félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Hafa verið viðraðar hugmyndir um að Almannaheill eigi formlega aðild að stofnuninni. Stefnt væri að því að fyrsta verkefni þessarar miðstöðvar yrði að kanna nánar áhrif af efnahagsþrengingunum á þriðja geirann.
Nánari upplýsingar um Almannaheill má finna á: www.almannaheill.is

Skildu eftir svar