Varðandi skráningu almannaheillasamtaka á raunverulegum eigendum

Eins og rætt hefur verið á fundum stjórnar Almannaheilla að undanförnu þá hefur það vafist fyrir mörgum félagasamtökum hvernig skrá eigi “raunverulega eigendur” samtakanna hjá fyrirtækjaskrá. Leiðbeiningarnar um það eru ekki skýrar. Það hefur einnig vafist fyrir fyrirtækjaskrá að gefa nákvæmar upplýsingar um þetta efni–starfsmaður fyrirtækjaskrár hefur skýrt þetta hik við að gefa afdráttarlaus svör fyrir formanni Almennaheilla með því að fyrirtækjaskrá geti síðar orðið úrskurðaraðili í málum sem kunna að rísa vegna þessarar skráningar.

Almannaheillasamtök hafa greinilega eitthvað svigrúm með hvernig þau skrá raunverulega eigendur. Það kann að einhverju leyti að fara eftir aðstæðum félaganna. En af samtölum við starfsmenn Ríkisskattstjóra og Fyrirtækjaskrár að dæma er öruggast fyrir almannaheillasamtökin að skrá stjórnir samtakanna sem þessa raunverulegu eigendur. Fyrir þeim möguleika er gert ráð fyrir á eyðublaði RSK 17.28. Það mun vera langsamlega algengasta aðferð félaganna til að skrá eigendur sína.

Samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra á skráningum raunverulegra eigenda að vera lokið 1. mars n.k. Dragist skráningin lengur geta félög átt á hættu að þurfa að greiða sekt.

Fyrirtækjaskrá leggur einnig áherslu á að almennar skráningar félaga séu uppfærðar reglulega, einkum þegar breytingar verða á skipun stjórna. Rétt er að gera það fyrir þessa skráningu á raunverulegum eigendum. Hér eru leiðbeiningar um slíkar tilkynningar:

Vegna breytinga í fyrirtækjaskrá þarf að skila inn eftirfarandi gögnum.

1.       Tilkynningu um stjórn, sjá eyðublað hér: https://www.rsk.is/media/rsk17/rsk_1730.is.pdf – athugið að stjórn / varastjórn verður að vera skipuð í samræmi við samþykktir félagsins.

2.       Tilkynningu um heimilisfang ef við á, sjá eyðublað hér: https://www.rsk.is/media/rsk17/rsk_1740.is.pdf

3.       Skila þarf inn afriti af fundargerð síðasta aðalfundar.

4.       Skila þarf inn afriti af samþykktum (lögum) félagsins, undirrituðum af a.m.k. meirihluta stjórnar eða prókúruhafa.  Í viðhengi má finna sýnishorn af samþykktum þar sem eru allar þær greinar sem verða að vera.