Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla, og Hrannar B. Arnarsson, formaður Norræna félagsins, skrifuðu í dag undir samning þess efnis að Norræna félagið verði framkvæmdaaðili lýðræðishátíðarinnar Fundur fólksins næstu þrjú ár. Samningurinn er gerður í framhaldi af góðum styrk Reykjavíkurborgar og Félagsmálaráðuneytis við fundinn ásamt Norræna húsinu.
Fundur fólksins verður haldinn í Norræna húsinu dagana 16. – 17. október næstkomandi.
Lýðræðishátíðin var fyrst haldin í Norræna húsinu í júní árið 2015 og á sér fyrirmynd á hinum Norðurlöndunum.
Tilgangur Fundar fólksins er að skapa vandaðan vettvang, þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka. Markmið hans er að skapa meira traust og skilning á milli ólíkra aðila samfélagsis.
Á lýðræðishátíðina Fund fólksins mætir fólk sem vill taka þátt í suðupotti þar sem raddir fólksins í landinu heyrast. Félagasamtök um allt land taka þátt í dagskránni sem samanstendur af óformlegum og formlegum fundum, uppákomum, tónlist, gleði og glaumi. Markmið hátíðarinnar er að efla rödd almennings, koma skoðunum á framfæri og ræða málefni samfélagsins. Fundur fólksins er því kjörinn vettvangur fyrir hópa og félagasamtök að standa fyrir málstofum, pallborðsumræðum, kynningum á ákveðnum málefnum, sýna sig og sjá aðra á þeim forsendum að allir skipta máli. Allir geta tekið þátt og hægt er að skrá viðburði á heimasíðu hátíðarinnar fundurfolksins.is
Þátttakendur lýðræðishátíðarinnar ákveða sjálfir málefni og bera ábyrgð á sínum viðburðum en búast má við að áhrif Covid – 19 verði fyrirferðamikið efni. Þá verður lögð áhersla á málefni ungs fólks.
Allir eru velkomnir á Fund fólksins og kostar ekkert inn á viðburði á hann. Streymt verður frá fjölda viðburða.
Miklu meira um Fund fólksins á vefsíðu Almannaheilla: www.almannaheill.is og www.fundurfolksins.is
Ítarlegar upplýsingar um fundinni veitir Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Fundar fólksins kristin@fundurfolksins.is